Skírnir - 01.04.2016, Page 57
57birtingarmyndir íslams
2 Íslam frá sjónarhóli Vesturlandabúa
2.1. Umræðan á Íslandi
Á Íslandi hefur nokkuð verið ritað um íslam, og ber þar helst að
nefna Íslam: Saga pólitískra trúarbragða (1991) eftir Jón Orm Hall-
dórsson og Píslarvottar nútímans: Samspil trúar og stjórnmála í Írak
og Íran (2005) eftir Magnús Þorkel Bernharðsson en í þeim báðum
er pólitísk saga íslams reifuð og metin. Í Breyttum heimi (2015)
tengir Jón Ormur svo fyrri greiningar við alþjóðastjórnmál sam-
tímans.
Í bók sinni Íslam: Saga pólitískra trúarbragða heldur Jón Ormur
(1991: 7) því fram að leiðrétta þurfi þá mynd sem jafnt vestrænir
menn og múslímar á Vesturlöndum hafi af íslam, en hún sé lituð „af
langri sögu óvildar og átaka“. Í þeirri viðleitni reynist Jón Ormur
trúr lærisveinn upplýsingarinnar og marxískrar samfélagsgreiningar.
Það kemur einkum fram í upphafi ritsins þegar Jón gerir grein fyrir
efnistökum sínum og skilgreiningu á eðli trúarbragða. Að hans mati
eru trúarbrögð til staðar af því að þau mæta trúarþörf mannsins en
sú þörf sprettur af þeim tilvistarvanda sem spurningar um „dauð ann,
tilgang lífsins, hið illa og eðli þjáningarinnar“ vekja (Jón Ormur
Halldórsson 1991: 9). Þó að þær og þörfin fyrir svör, séu ekki
bundnar af skipan þjóðfélagsins, þá eru trúarbrögðin það. Hlutverk
þeirra er að miðla milli tilvistarvanda og samfélagsforma, auk þess
að réttlæta samfélagsskipanina þar sem flest þjóðfélög þurfa „ut-
anaðkomandi helgun á siðum sínum“ (Jón Ormur Halldórsson
1991: 11). Jón Ormur bindur þannig trúarþörfina við einstaklinginn
en trúarbrögðin við samfélagsgerðina. Vegna þessa hlutverks eru
trúarbrögð notuð til að helga „efnalegan ójöfnuð og vald eins
manns yfir öðrum, bæði fyrir þeim sem beittur er valdi eða ójöfnuði
og eins fyrir þeim sem slíku beitir“ (Jón Ormur Halldórsson 1991:
13). Jón Ormur hefur áhuga á að skoða hvernig kennisetningar og
skipulag trúarbragða falla að „þjóðfélagsgerð, pólitískum átökum,
pólitískum viðfangsefnum, efnahagslegu skipulagi og breytingum
á lífsskilyrðum hópa, stétta og heilla þjóðfélaga“ (Jón Ormur Hall-
dórsson 1991: 14). Að hans mati hefur afhelgun samfélagsins ekki
skírnir
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 12:59 Page 57