Skírnir - 01.04.2016, Page 61
61birtingarmyndir íslams
útbreiðslu hans innan sem utan hins íslamska heims, sérstaklega í
kjölfar breytinganna sem gengið hafa yfir heimbyggðina eftir fall
járntjaldsins.4 Í kenningagrunni sínum greinir wahabismi eða salaf-
ismi sig ekki mikið frá hreyfingum á borð við al-Kaída og Isis. Í
þessum stefnum er lögð áhersla á að hrein trú hafi orðið til á dögum
spámannsins en æ síðan átt í vök að verjast gegn þeirri villu að laga
hana að aðstæðum á hverjum tíma. Í upphafi hafi trúin ekki tekið
mið af menningarlegu umhverfi sínu og eigi því heldur ekki að gera
það nú á dögum. Sama gildi um hvers kyns guðfræðilegar og heim-
spekilegar vangaveltur. Boðskapur þessara stefna er skýr, þ.e. að
mönnum beri að haga „sér upp á punkt og prik eftir afar þröngum
túlkunum þeirra á trúnni“ (Jón Ormur Halldórsson 2015: 403, sbr.
218–219, 411). Þegar þessi hreintrúarstefna, sem kvað m.a. á um að
dýrkun á einstaklingum væri forboðin, varð ofan á í Sádi-Arabíu
voru fornminjar í Mekka sem tengdust sögu spámannsins jafnaðar
við jörðu. Enn er söguminjum fórnað, nú síðast til að rýma fyrir
verslunarmiðstöð. Þrátt fyrir slíka stefnu hefur afstaða Vesturveld-
anna til þessara valdhafa haldist óbreytt. Hornsteinn hennar er að í
þessum heimshluta beri að styðja og verja þessi ríki til að tryggja
óheft alþjóðleg viðskipti með olíu á markaðsverði.
Mikill meirihluti múslima hafnar aftur á móti svo afgerandi
túlkun á Kóraninum og trúararfinum. Sú skoðun nýtur raunar mik-
ils stuðnings almennings í Mið-Austurlöndum að stjórnmálum og
trúarbrögðum eigi ekki að blanda saman. Þess gætir líka að fólk
hefur „fengið yfir sig nóg af trúarlegri pólitík og ofríki pólitískra
kennimanna í þjóðfélagsmálum“ (Jón Ormur Halldórsson 2015:
225). Þetta er áberandi í Íran þar sem krafan um opnara samfélag
eftir áratugalanga klerkastjórn myndar djúpa undiröldu í samfélag-
inu (Jón Ormur Halldórsson 2015: 155). Þegar til lengri tíma er litið
eiga Vesturlönd og lýðræðisöfl, að mati Jóns, frekar samleið með
Íran en Sádi-Arabíu. Þessu veldur, sem fyrr segir, að innan shía-
skírnir
4 „Stuðningur Sádi-Arabíu við hreintrúarsamtök um allan hinn íslamska heim hefur
gert þeim kleift að stunda miklu öflugra starf en stærð þeirra gæti gefið til kynna.
Mörg samtök af þessu tagi hafa einnig notið stuðnings frá Katar og Kúvæt“ (Jón
Ormur Halldórsson 2015: 401).
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 12:59 Page 61