Skírnir - 01.04.2016, Síða 92
þau, heldur taka saman stutt yfirlit og fjarri því tæmandi yfir hvaða
orð hafa verið notuð um fyrirbærin sem í hlut eiga og hvernig menn
fyrr og nú hafa talað um þau og/eða greint þau.
Þar eð við fáumst við hugræna bókmenntafræði (e. cognitive
literay criticism), göngum við óspart í smiðju sálfræðinga, tauga -
fræðinga, málfræðinga og heimspekinga, jafnt þegar við hugum að
persónulýsingum í frásögnum og þegar við könnum viðtökur lifandi
manna við bókmenntum. Það hefur því ekki farið fram hjá okkur
hversu ólíkur skilningur manna er á empathy, sympathy, compas-
sion og skyldum fyrirbærum í alþjóðlegri fræðaumræðu. Okkur
langar hins vegar til að fá íslenska fræðimenn til að ræða um þessi
fyrirbæri sín á milli á eigin máli.
Í samræmi við samtímarannsóknir í taugafræðum, höfum við
lagt í orðið empathy merkinguna ,það að finna til þess sem aðrir
finna‘ og kallað hana á íslensku samlíðan eða samlíðun. Til aðgrein-
ingar frá slíkri samlíðan sem við teljum að rekja megi beint til
hreyfikerfis mannsins, höfum við talað um vitsmunalega samlíðan
(e. cognitive empathy), það er ,að setja sig í spor annarra án þess að
líðan þeirra hríni beinlínis á sjálfum manni‘. Skyld hugtök sem þá
hafa komið upp og við höfum talið brýnast að greina frá þessum
tveimur eru: sympathy, compassion, mimicry, emotional contagion og
Theory of Mind.
Eftir því sem við komumst næst stangast orðanotkun okkar í
sumum atriðum á við orðanotkun einhverra í læknisfræði, félags -
fræði og sálfræði hérlendis, en við munum gera grein fyrir for-
sendum okkar og þar eð við vísum meðal annars til sögu orðanna og
þeirra sem við erum sammála, ættu aðrir að geta gagnrýnt hugmyndir
okkar á þokkalega traustum grunni.
Við hyggjumst hér víkja að miðaldamáli, rekja síðan nokkur
dæmi um samlíðan í íslensku á seinni öldum, ræða um hvenær menn
tóku að nota orðin Einfühlung/empathy um það sem við köllum
samlíðan og nefna stuttlega þær rannsóknir sem við byggjum á. Við
drepum þá líka á önnur orð sem notuð hafa verið á íslensku um
empathy og ræðum skyld fyrirbæri og þýðingu orða sem vísa til
þeirra.
92 bergljót soffía og guðrún skírnir
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 13:00 Page 92