Skírnir - 01.04.2016, Page 93
93„samkennd er … “
II
Saga þeirra hugtaka sem hér eru undir er ekki aðeins mislöng heldur
eiga þau sér sum rætur í trúarritum en önnur í sálfræði, heimspeki
og læknisfræði. Öll eiga þau þó sameiginlegt að lýsa skilningi,
skynjun eða líðan einstaklinga andspænis líðan annarra eða nánar til-
tekið líkams- og tilfinningaviðbrögðum þeirra við líðan annarra.
Menn hafa á öllum tímum þurft að hafa orð á slíkum viðbrögðum
þannig að vert er að byrja á að spyrja: Hver voru þau orð sem menn
notuðu fyrr á tíð á Íslandi? Svo umfangsmikilli spurningu verður
auðvitað ekki svarað ítarlega hér, en stiklur teknar.
Í Ordbog over det norrøne prosasprog (ONP) á Árnasafni í
Kaupmannahöfn kemur fram að í íslenskum miðaldahandritum er
orðið miskunn notað allt frá því um 1200 sem þýðing á latneska
orðinu misericordia. Sum dæmanna eru þannig að leggja má í orðið
skilninginn ,samúð‘, það er ,það að finna til með öðrum‘ eða
eitthvað í þeim dúr.2 Einkar skemmtilegt er dæmi úr Barlamssögu
sem hafa má til marks um hvernig miskunn og várkynd — vorkynd
eða vorkunn — tengjast á sama merkingarsviði. Þar er reyndar um
að ræða samsetta orðið „miskunnar biærtleikr“ eða miskunnar-
bjartleikur: „var þegar sem kœmi i hug honom. at hann skylldi no-
kora varkynd. eða miskunnar biærtleik. vennda til mœyarennar.“
Í handritunum má líka finna orðið várkunnigr— eða vorkunn-
igur — sem norski klerkurinn Johan Fritzner (1896: 872) skýrir í
orðabók sinni, „medlidende, barmhjertig mod nogen“. Það kemur
meðal annars fyrir í einu handrita Díalóga Gregóríusar, þýðingu
sem talin er vera frá 1200–1225. Hér skal þó tekið dæmi úr handriti
Stjórnar frá seinni hluta 14. aldar af því að þar er líkamsviðbrögðum
hins vorkunniga lýst: „… hann uar suá uárkunnigr sínum sam-
mæddum bróður, at hann taraðizt.“ Loks skal nefnt að orðið hlut-
tekning í merkingunni ,samúð með öðrum í sorg eða (öðrum)
bágindum‘ (Íslensk orðabók 2002: 609) kemur einu sinni fyrir í ís-
lenskum miðaldahandritum. Það er í þýðingu á Vita patrae frá því
skírnir
2 Tekið skal fram að orðið er líka notað sem þýðing á venia, gratia, salus og indul-
gentia.
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 13:00 Page 93