Skírnir - 01.04.2016, Page 112
GUÐRÚN KVARAN,
GUNNLAUGUR A. JÓNSSON, SIGURÐUR PÁLSSON
Viðeyjarbiblía (1841)
Áhrif hennar og staða í sögu íslenskra biblíuþýðinga
Markmiðið með þessari grein um Viðeyjarbiblíu er að meta áhrif
hennar og stöðu í langri sögu íslenskra biblíuþýðinga. Því hefur oft
verið haldið fram að Viðeyjarbiblía marki ákveðin eða jafnvel mikil
og merkileg þáttaskil í þessari sögu. Hér verður leitast við að meta
hvað hæft er í þeim staðhæfingum og í hverju þáttaskilin séu þá fólgin.
Viðeyjarbiblía er fyrsta biblíuþýðingin sem kemur út eftir
stofnun Hins íslenska biblíufélags (1815) og af þeim sökum og í ljósi
þeirra markmiða sem félagið setti sér er forvitnilegt að meta áhrif
hennar á síðari biblíuþýðingar.
Í formála Viðeyjarbiblíu er gerð grein fyrir markmiðum þýð -
enda. Þar segir m.a.:
Félagid ætlast til að útleggíng Biblíunnar á Islendsku sé nú ordin réttari og
betri enn hún ádur var. Adal reglan eptir hvørri þad vildi gánga í þessu
starfi, og hvar um þeim var skrifad í upphafi, sem bednir voru ad takast
verk þetta á hendur, var sú: ad umbreita eingu, nema því sem bersýnilega
þætti málleysa, eda þreifanlega rángt útlagt, og þoka útleggíngunni nær
høfud-textanum ad svo miklu leiti sem Islendskan leyfdi; ordfærid skyldi
vera tilgjørdarlaust og audskilid. Þessari reglu ætlum vér hafi verid meir
eda minna fylgt, þó margt kunni hafa yfirsjest, sem eingum mun þykja til-
tøku mál þar sem svo mikid og vandasamt verk var med høndum haft, og
sem margir þar ad auki hafa ad unnid (1841: iii).
Í þessari grein munum við hafa þessi markmið Biblíufélagsins til
viðmiðunar og leitast við að kanna hvernig tekist hefur að fylgja
þeim eftir. En nauðsynlegt er að spyrja fleiri spurninga.
Þannig verður leitað svara við því að hve miklu leyti Viðeyjar-
biblía byggist á þeim þýðingum sem á undan eru komnar, og hver
séu tengsl hennar við einstakar þeirra þýðinga.
Skírnir, 190. ár (vor 2016)
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 13:00 Page 112