Skírnir - 01.04.2016, Page 158
Helga fjallar m.a. um verk Svövu Jakobsdóttur og þar kemur
Bakhtín fyrst við sögu.3 Skrif hans eru raunar snar þáttur í djúp -
stæðri breytingu sem verður á fræðilegri afstöðu Helgu undir lok
áttunda áratugarins. Hún snýr sér í auknum mæli frá samtímabók-
menntum og að rótum þeirra, fornsögunum. Að þessu víkur Helga
í formála að fyrsta greinasafni sínu, Fyrir dyrum fóstru: Greinar um
konur og kynferði í íslenskum fornbókmenntum. Í umfjöllun um
elstu greinina í safninu, „,Ekki höfum vér kvennaskap‘: Nokkrar
laustengdar athuganir um karlmennsku og kvenhatur í Njálu“
(1977), segir t.d.:
Aðferðafræðilega sker hún sig nokkuð úr greinunum sem á eftir koma og
er „gamaldags“ að því leyti að í henni geng ég út frá höfundarhugtakinu
fremur en textanum sjálfum. Ég tek söguna mjög alvarlega sem hetjusögu
og lít fram hjá allri gróteskunni sem fylgir hetjulýsingum Njálu og afbyggir
þær. Greinin er hugmyndafræðigagnrýni og sver sig í ætt við bókmennta -
fræðiumræðu síns tíma. Textinn er einradda og merking hans er sömuleiðis
ein og ákveðin. (Helga Kress 1996: 7–8)
Nútímabókmenntafræði barst ekki til landsins fyrr en í byrjun ní-
unda áratugarins. Í tilvitnuninni hér að ofan má greina ummerki
þeirra fræðimanna sem mótuðu teoríuna— þ.e.a.s. bókmenntafræði
á póststrúktúralískum eða póstmódernískum forsendum — öðrum
fremur: Roland Barthes (textinn í stað höfundarhugtaksins), Derrida
(afbygging), Bakhtín (gróteska, einröddun) og þó er það sjálfsagt
Júlía Kristeva sem Helgu er hugleiknust.4 Þegar Helga snýr aftur
158 gunnar þorri pétursson skírnir
3 Greinin birtist 1979 í Norsk litterær årbok II. Sjálfsagt var þetta í fyrsta sinn sem
Íslendingur vitnaði í Bakhtín, Helga sækir í Tvortsjestvo Fransua Rable í nar-
odnaja kúltúra srednevekovja í renessansa (Verk François Rabelais, alþýðumenn-
ing miðalda og endurreisnar, 1965) og tilvitnunina mætti þýða svo: „Veröldin í
sinni kunnuglegu mynd verður framandi… en jafnskjótt opnast kærkominn
heimur, heimur þar sem „Gullöldin“ og karnivalískur sannleikur eiga sinn vísa
stað. Maðurinn hverfur aftur til upphafsins“ (Þýðing mín unnin upp úr Bakhtín
2010: 59).
4 „Aðferðafræði við femínískar bókmenntarannsóknir var mikið á döfinni á þessum
tíma,“ segir Helga Kress t.d. í viðtalinu við Lesbók Morgunblaðsins (Þröstur
Helgason 2001: 7). Þar rekur hún þróun sína frá samfélagslegri nálgun til texta-
greiningar og svipar um margt til afstöðu búlgarsk-frönsku fræðikonunnar. Svo
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 13:00 Page 158