Skírnir - 01.04.2016, Page 160
Íslendingasögur. Forsprakkar íslenska skólans svokallaða litu á
sagnaarfinn sem eins konar kúrfu, samkvæmt Helgu; þróun sem átti
sér upphaf, hápunkt og hnignunarskeið. Sigurður Nordal og Einar
Ólafur Sveinsson álitu að eftir ákveðna byrjunarörðugleika, sem
mætti t.d. glöggt sjá í Fóstbræðra sögu, hefði sagnalistin náð hæstum
hæðum í verkum á borð við Njálu og Hrafnkötlu en síðar útþynnst
og dalað. Helga bendir á að umræða um fagurfræðilegt gildi miðist
við list Íslendingasagna þar sem hún rís hæst samkvæmt kúrfunni.
Þessar sögur einkennast annars vegar af hlutlægni í stíl en hins vegar
því sem Einar Ólafur kallar „hetjulegt raunsæi“ (Helga Kress 1996:
46). Það sem hann og Sigurður Nordal finna að „frumstæðari“
sögum á borð við Fóstbræðra sögu er einkum viðleitni höfundar til
að grípa fram í frásögnina með innskotum og útúrdúrum. „Slíkar
hugleiðingar ríða algerlega í bága við hinn einfalda, hlutlausa ís-
lenzka sögustíl,“ hefur Helga (1996: 49) eftir þriðja meðlimi íslenska
skólans, Birni M. Ólsen. „Vera má að einhverjum þyki þetta þung-
bær niðurstaða,“ skrifaði Jónas Kristjánsson þegar rannsóknir leiddu
í ljós að klausurnar svokölluðu væru ekki síðari tíma viðbætur
heldur upprunalegar í sögunni (Helga Kress 1996: 50).
Í stuttu máli: Ríkjandi viðhorf innan bókmenntastofnunarinnar,
samkvæmt Helgu, er að höfundur Fóstbræðra sögu hafi lagt upp
með að skrifa hetjusögu í hlutlægum sögustíl „en ekki getað haldið
aftur af sér og farið að nota hefðarstíl eða skrúðstíl þegar aðdáunin
á hetjunum var sem mest“ (Helga Kress 1996: 51). Hún sýnir aftur
á móti með dæmum að misræmi efnis og forms gæti eins verið vís-
vitandi af hálfu höfundar, stílbragð sem beitt er í því skyni að fram-
kalla íróníu eða háð.
Fóstbræðra saga er ekki nein hetjusaga á borð við Laxdælu og Njálu og
hefur aldrei átt að vera það. Og hún er ekki sögð frá sjónarhorni höfðingja
eins og þær, heldur frá sjónarhorni alþýðu. Hún er gamansaga þar sem
skop ast er að hetjuhugsjóninni og þeim bókmenntum sem hana dýrka.
Sá höfðingja- og hetjumælikvarði sem fræðimenn hafa lagt á söguna og
reyndar alla bókmenntategundina Íslendingasögur — gildir ekki. Og ég
held að hann hafi ekki einungis tafið fyrir skilningi á Fóstbræðra sögu,
heldur einnig fyrir réttum skilningi á fleiri sögum sem hingað til hafa verið
160 gunnar þorri pétursson skírnir
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 13:00 Page 160