Skírnir - 01.04.2016, Page 175
175bakhtín à la kress:
sönnur þess að þessi syndugi maður hefur hlotið aflausn? „Þá er
sjálf brennan augljós táknmynd fyrir hreinsunareldinn sem allir
miðaldamenn verða að ganga í gegnum, áréttað ef þurfa þykir með
orðum Njáls: ,… Guð mun ekki láta okkur brenna bæði þessa
heims og annars‘“ (Pétur Gunnarsson 2014: 42) segir í nýlegri grein
þar sem samsvaranir Njáls sögu við Biblíuna eru m.a. til umfjöll-
unar.
IV
„Vertu suverén.“ Helga Kress fór að ráðum frænda síns, hóf sig yfir
umræðuna sem skapaðist í kjölfar skrifa hennar um samtímabók-
menntir á áttunda áratugnum, fylgdi köllun sinni og leitaði að
rótum vandans. Krafa um leiðréttingu á kynjamisrétti sem næði til
grunnstoða menningarinnar og samfélagsins lá, eins og getið var í
upphafi þessarar greinar, djúpt í farvatni níunda áratugarins: Fyrsti
lýðræðiskjörni kvenforseti í veraldarsögunni var kosinn á Íslandi
árið sem Helga hélt fyrirlestur sinn um Fóstbræðra sögu og
Gunnlaðar saga (1987) kom út haustið sem erindið birtist á prenti.
Skáldsaga Svövu Jakobsdóttur og grein Helgu eru líkt og
ráðning á prósaljóðinu „Draumi“ eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur. Í
ljóðinu mætir skáldkona Óðni á einstigi, kallar á hann en mætir
girndarauga sem tekur af allan vafa um erindið sem guð skáldskap-
arins á við konur. „Og ég sem hélt ég væri skáld,“ hugsar ljóðmæl-
andinn þegar hún vaknar — „í sál minni brann reiðin“, eru lokalínur
ljóðsins (Vilborg Dagbjartsdóttir 1977: 32). Segja má að Svava og
Helga yfirstígi þá máttvana reiði sem „Draumur“ Vilborgar túlkar
svo sterkt; í stað þess að láta augnaráð Óðins (tákn fyrir skáldskap-
inn séðan út frá ríkjandi sjónarhóli karllægrar hefðar) skilgreina sig
— skilgreina þær hefðina upp á nýtt. Á níunda áratugnum er
eitthvað í tíðarandanum sem gerir Svövu og Helgu þetta kleift,
þ.e.a.s. að sporðreisa menningararfinum þannig að grunnsögur hans
(Óðinn og skáldamjöðurinn) jafnt sem grunneiningar íslenskrar frá-
sagnarhefðar (flokkun Íslendingasagna, hlutlægni sem merki um
glæstan stíl, hetjuhugsjónin) birtust í nýju og afhjúpandi ljósi.
Leiðin, eins og alltaf, liggur í gegnum skítinn; því er synd að
skírnir
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 13:00 Page 175