Skírnir - 01.04.2016, Page 188
Heitið er dálítið villandi því þetta táknar ekki að honum leyfist að
tala eðlilega, þetta er stílbrigði. Á leiksviði hljómar rödd aldrei eins
og venjulegt talað mál. Leikarinn þarf að beita henni þannig að
fullur salur áhorfenda skilji hvað hann er að segja. Hann ber text-
ann uppi með þindarstuðningi, allt að því kveður hann og leyfist
ekki að draga jafn mikið úr raddstyrk og eðlilegt væri í töluðu máli.
Hann stækkar röddina. Jafnvel þótt hljóðmögnun sé beitt kveður
leikarinn öðruvísi að orðum sínum en í hversdagslegu tali.
Í natúralískum leikstíl heldur þó framsögnin nokkrum ein-
kennum óbundins talmáls eins og víðu raddsviði, fjölbreyttum hryn
og talsverðum en breytilegum hraða. Leiktextar eru hins vegar af
ýmsu tagi. Textinn gæti verið í bundnu máli og þá fer framsögnin
að líkjast kveðandi og fær ýmis einkenni söngs. Svo er að athuga að
bragurinn getur verið margvíslegur og það er misjafnt eftir mál -
svæð um og menningarheimum hvernig kveðandi hljómar. Hér
megum við nefnilega víkka sjónarsviðið: Ef við tökum með allar
hugsanlegar stíltegundir og hefðir leiktúlkunar og önnur tímabil
eða heimshluta sjáum við að framsögn texta á sviði hneigist ýmist í
átt að tali, eins og í natúralísku leikhúsi Vesturlanda, eða hálfgerðu
tóni eins og gjarnan í klassísku frönsku leikhúsi, eða söng, eins og
víða í austurlensku leikhúsi, tóni og tali eins og í japanska Noh-
leikhúsinu og þannig mætti lengi telja. Það eina sem ekki heyrist á
sviði er venjulegt tal.
Þetta leggur ákveðið verk í hendur sérhvers leikstjóra: Hann má
til með að taka upplýsta ákvörðun um það hvar á söngrófinu radd-
irnar eiga að dvelja. Leikarinn er alltaf að syngja, bara misjafnlega ut-
arlega á söngrófinu.
Nú er óhætt að líta á óperusöng frá svipuðu sjónarhorni. Það er
nefnilega engin ástæða til að líta á hann sem andstæðu talaðs máls.
Ef við berum saman sungið samtal eftir Puccini, tónles með undir-
leik eftir Monteverdi, Sprechgesang-laglínu eftir Berg og aríu eftir
Mozart sjáum við að þótt allt sé þetta söngur nálgast það tal mis-
mikið. Því má allt eins snúa söngrófinu við og kalla talróf, segja að
hvert tónskáld finni sinn stað á talrófinu.
188 atli ingólfsson skírnir
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 13:00 Page 188