Skírnir - 01.04.2016, Page 190
Önnur alhæfing: Allt leikhús er ópera
Líklega halda ennþá flestir að leikhús sé til þess að setja rituð leik-
verk á svið. Það er jú gangurinn í flestum leiksýningum sem okkur
bjóðast. Á undanförnum hundrað árum hefur þó jafnt og þétt
molnað undan þessu viðhorfi. Þess í stað þykir nú orðið meira við
hæfi að telja sviðslist til sjálfstæðra listgreina, hún sé annað og meira
en bara útibú frá bókmenntunum. Sviðslistin lýtur eigin lögmálum
og fléttar saman texta, búningum, leikmynd, lýsingu, hljóðmynd
og hreyfingu. Til að undirstrika jafnræði þessara þátta þótti ráðlegt
að skerða vægi textans og það var einmitt dagskipun margra leik-
stjóra.3
Þegar áðurnefnd hráefni eru fléttuð saman til að mynda form er
allur gangur á því hvað haft er að leiðarljósi. Mér er tamast að lýsa
aðförunum með orðalagi tónlistarinnar. Það er vegna þess að hvort
sem um er að ræða þætti sem heyrast í raun, eins og texta og
hljóðmynd, eða sjónræna þætti, hefur hver þeirra sína framvindu
eða sköpulag í tíma. Því má líta á hvern þátt sem rödd í tónverki,
svona eins og sjálfstæða hljóðfærarödd sem er stundum mjög lífleg,
stundum hlédræg en þegir líka stundum. Þegar skyndileg breyting
verður á lýsingu, svo dæmi sé tekið, getum við líkt því við það þegar
ein hljóðfærarödd leikur sterkan tón. Þá berast okkur miklar eða
áberandi upplýsingar frá þeirri rödd. Því kýs ég að kalla þessa þætti
sýningarinnar raddir hennar, sýningarraddir.
Nú er það allmikilvægt að sviðsverkið verði ekki ruglingslegt.
Þá má ekki berast stöðugur straumur upplýsinga frá öllum sýning-
arröddum samtímis. Þarna ríkir eins konar kontrapunktur: Þegar
miklar upplýsingar berast frá einni rödd eru hinar jafnan víkjandi.
Önnur algeng brögð úr þeirri átt eru að ein er látin stýrast af ann-
arri, eða þær mynda algerar andstæður. Hnökralaus útfærsla á
samspili sýningarraddanna er skilyrði fyrir vel heppnaðri leiksýn -
ingu.
190 atli ingólfsson skírnir
3 Nefna mætti afdráttarlausa afstöðu í garð textans hjá Gordon Craig (d.1966) eða
Antonin Artaud (d.1948), en fjölda annarra eftir þeirra tíð.
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 13:00 Page 190