Skírnir - 01.04.2016, Page 210
menn kölluðu Saura) og úr dánarbúi hans var Uppsala-Edda keypt.
Brahe hafði áreiðanlega heyrt vini sína í Uppsölum, Olof Rudbeck
hinn eldra (1630–1702) og frænda sinn Magnus Gabriel De la
Gardie (1622–86), kvarta undan Íslendingaskorti til að lesa þau
fornu rit sem menn voru farnir að skilja að segðu frá sænskri sögu.
Einkum var erfitt að lesa vísurnar, og Rudbeck skrifaði: „Scalderna
äro dreffligh swåra att förstå.“13 Þarna höfðu Danir nokkurt for-
skot og svo var lengi, einfaldlega vegna þess að allir stúdentar sem
leituðu sér framhaldsnáms sóttu til Hafnar.
Greinilegt er að Jón Jónsson hefur að einhverju marki staðist
próf Brahe, nóg til þess að hann sendi pilt til framhaldsnáms í Vis-
ingsey í Vättern. Þar átti Per Brahe einskonar menntaskóla, trivial-
skóla, sem hann hafði stofnað 1636, og þar innritaðist Jonas Jonae
Islandus til náms haustið 1658. Ekki er vitað hve lengi hann sat
þarna á skólabekk, en áreiðanlega a.m.k. til stríðsloka 1660.
Tvívegis vitum við að Jonas Rugman fór til Kaupmannahafnar.
Fyrri ferðina fór hann eftir dvölina á Visingsey. Um erindið er ekk-
ert vitað en langsennilegast að fyrir honum hafi vakað að ljúka þeim
erindum sem réðu ferðinni 1658 frá Íslandi. Um það er ekkert vitað
og reyndar varla neitt úr ferðasögunni fyrr en Brahe hefur skrifað
sínum manni í Helsingjaborg, Muschamp að nafni, í maí 1662 til að
biðja hann að sannreyna hvort bókakista Jonasar sé hjá veðlánara í
Helsingjaborg. Jonas Rugman hefur þá orðið að veðsetja pjönkur
sínar til þess að geta haldið ferðinni áfram.14
Um þessa ferð hafa menn yfirleitt látið sér fátt, Schück (1932:
200) segir meira að segja í Akademíusögu sinni að Brahe hafi fyrst
sent Rugman til Visingseyjar og svo stuttu síðar („kort därefter“) til
Uppsala og skýring hans á Hafnarferðinni er einföld: Jonas ætlaði
vafalaust að komast í háskóla í Kaupmannahöfn en „Förmodligen
misslyckades han i Köpenhamn och beslöt då att försöka sin lycka
vid det svenska universitetet“ (Schück 1932: 202).
Þegar Rugman var í Kaupmannahöfn 1661 eða 1662 hefur hann
áreiðanlega haft spurnir af Þormóði Torfasyni, Tormod Torfæus,
210 heimir pálsson skírnir
13 Sbr. Grape 1962: 34.
14 Um þetta bréf og söguna alla, sjá Schück 1932: 201–202.
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 13:00 Page 210