Skírnir - 01.04.2016, Page 216
náttúrunni. Þegar keppninni lauk og tjald var fyrst dregið frá mynd
Zeuxis, blöstu við svo girnileg og fagurlega máluð vínber að fuglarnir
sóttu þegar í þau. Parrhasius bað Zeuxis þá um að draga tjaldið frá
sinni mynd, en viti menn, í ljós kom að sjálft tjaldið var sjónhverf-
ing máluð á myndflötinn, og Zeuxis varð að játa ósigur sinn: „Ég
blekkti fuglana, en Parrhasius hefur blekkt Zeuxis.“
Þessi saga er hér sögð til að benda á að eðli allrar myndlistar er
að blekkja augað. Í þessu sambandi er einnig vert að benda á, að
þegar dýr lætur blekkjast af mynd og uppgötvar blekkinguna, þá
missir það tafarlaust áhuga á fyrirbærinu og snýr sér að einhverju
öðru. Því er hins vegar þveröfugt farið með mannfólkið. Það sem
vekur áhuga þess á myndum er einmitt og einungis þessi blekking:
vitundin um að á bak við myndina sé eitthvað annað, að hún vísi
út fyrir sig sjálfa með táknrænum hætti í einhverjum skilningi. Að
á milli myndarinnar og náttúrunnar sé óskilgreint rými sem verður
auganu og hugsuninni fóður fyrir nýja upplifun á veröldinni. Þá
fyrst verður myndlistarverk áhugavert fyrir okkur mannfólkið
þegar við upplifum í því ráðgátu sem opnast á milli myndarinnar
og veruleikans, svið sem verður áhorfandanum staður og viðfangs-
efni til að staðsetja sjálfan sig í verkinu og finna þannig hljómbotn
þess í sjálfum sér og umhverfinu. Þetta er meðal annars eitt af því
sem greinir manninn frá dýrunum. Upplifun rofsins á milli myndar
og veruleika, á milli menningar og náttúru, er í rauninni hinn stóri
leyndardómur allrar listreynslu og um leið kjarni hinnar óleysan-
legu ráðgátu allrar sannrar listar. Á meðan fuglarnir sjá bara mögu-
lega saðningu í vínberjum Zeuxis, þá virkjar myndin öll skilningar-
vit mannsins með allt öðrum hætti. Með orðum Aristotelesar
gætum við sagt að dýrin bæru ekki hið minnsta skynbragð á það
sem er handan hins efnislega og áþreifanlega yfirborðs hlutanna,
það sem hann kallaði metafysika og hefur verið kallað frumspeki á
íslensku.
216 ólafur gíslason skírnir
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 13:00 Page 216