Skírnir - 01.04.2016, Page 221
221múslimar og hestar á leiksviði …
kvæmd ina sem listrænan gjörning. Í yfirlýsingu Kynningarmið -
stöðvar íslenskrar myndlistar, sem bar ábyrgð á verkinu, var þessum
ágreiningi m.a. svarað með eftirfarandi orðum: „Innsetningin er
listaverk og fullyrðingar um að svo sé ekki eru rangar.“ Hér var því
kominn upp áhugaverður ágreiningur um það hvort sýning á trú-
ariðkun gæti talist listrænn gjörningur eða hið gagnstæða, hvort
iðkun trúar væri kannski í eðli sínu list. Þótt innsetningin Fyrsta
moskan í Feneyjum hafi greinilega verið unnin í góðri samvinnu við
múslima búsetta í borginni, þá tók Imaninn í Feneyjum af skarið
varðandi þessa spurningu þegar deilurnar komust í hámæli, og fór
fram á það í sérstakri yfirlýsingu að félagar Samtaka múslima í Fen-
eyjum er kynnu að leggja leið sína í íslenska sýningarskálann „iðki
þar enga trúarlega helgisiði og komi þannig í veg fyrir misskilning
og hagsmunapot sem verði til þess að spilla trúarlegri samræðu í
borginni í stað þess að bæta hana“.
Þótt hvergi hafi verið minnst á það af hálfu höfundar eða
aðstandenda að sviðsetningin væri hugsuð til helgihalds, þá bar öll
framkvæmd gjörningsins það með sér, ekki síst framganga Sverris
Agnarssonar sem stjórnanda bænastunda og samverustunda, að
sjálft bænahaldið var frá upphafi hugsað sem þungamiðja verksins,
enda urðu bænastundirnar helsta aðdráttarafl verksins. Þeir sem
lofuðu gjörninginn sem listaverk töldu margir að einmitt bæna-
haldið hefði gefið verkinu styrk sinn og falið í sér það sem kalla
mætti „upphafna fegurð“ (sbr. ummæli Guðmundar Odds Magn-
ússonar í íslenska ríkissjónvarpinu).
Þær spurningar sem hér vakna eru mikilvægar og varða meðal
annars muninn á því að sýna og vera þegar kemur að listrænum
gjörningi. Mynd Zeuxis af vínberjunum vakti áhuga fuglanna vegna
þess að þeir töldu hana „vera“ vínber, mannfólkið dáði hins vegar
verkið vegna þess að það „sýndi“ vínber, sem annars voru víðs
fjarri. Hvar liggja mörkin á milli veruleikans og sýningar á honum?
„Hestar eru ekki list“
Það eru einmitt þessar sömu spurningar sem vakna, þegar við hug-
leiðum fyrrnefnt verk Jannis Kounellis, sem var endursýnt í New
skírnir
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 13:00 Page 221