Skírnir - 01.04.2016, Page 224
Þannig var verk Jannis Kounellis eins og andsvar við þessum
tvöfalda meiði bandarískrar listar sem birtist annars vegar í tvíræðri
upphafningu neyslusamfélagsins og ofgnóttarinnar (pop-listinni)
og hins vegar í smættunaráráttunni þar sem formið var smættað
niður í ýtrustu frumþætti sína með höfnun allra möguleika til nokk-
urrar táknrænnar vísunar út fyrir verkið sjálft (minimalismi). Hest-
arnir 12 áttu það sammerkt með hinum fundnu hlutum Marcels
Duchamp (og konseptlistinni sem fylgdi í kjölfarið) að vera teknir
hráir úr sínu náttúrlega umhverfi og settir með nánast ofbeldis-
fullum hætti í nýtt listrænt samhengi. Munurinn var hins vegar sá að
Duchamp reyndi að velja hluti sem hefðu alls ekkert til að bera sem
gæti gert þá athyglisverða eða eftirsóknarverða, og allra síst frá fag-
urfræðilegu, sögulegu eða efnahagslegu sjónarmiði. Þeim var stefnt
gegn „sjónhimnu-listinni“ og þeirri fagurfræði sem byggðist á hinni
„hlutlausu fullnægju“ hins menntaða fagurfræðilega smekks. Hestar
Kounellis eru hins vegar hlaðnir merkingu sem náttúrukrafturinn
sjálfur, náttúrukraftur sem maðurinn hefur beislað og tekið í sína
þjónustu. Í sínu nýja samhengi sem sýningargripir í sal listagallerís
(með allri þeirri sögu og væntingum sem það felur í sér) kölluðu
hestarnir fram það sjokkáreiti sem árekstur þeirra við lokaða veggi
listastofnunarinnar fól óhjákvæmilega í sér. Kounellis hefur yfir-
leitt verið fáorður um eigin verk, og enduruppsetning verksins í
New York síðastliðið sumar var þar engin undantekning. En Laura
Cunning, listgagnrýnandi dagblaðsins The Guardian, gat þó dregið
út úr honum þessa setningu: „My focus is to present, not to repre-
sent“ (í ónákvæmri þýðingu: „Markmið mitt er að leiða til nærveru,
ekki að endur-framkalla“). Við stöndum sem sagt ennþá frammi
fyrir hinum þverstæðufulla mun þess að „vera“ og að „sýna“. En ef
betur er að gáð, þá má finna ítarlegri lýsingu á upphaflegu markmiði
Kounellis með þessum gjörningi í merkilegu viðtali sem birtist í
gríska tímaritinu Greek Left Review þann 8. ágúst 2014:
Hestarnir voru bundnir við veggi sýningarsalarins til að mynda tengsl á
milli hinna lifandi þátta og hugmyndarinnar um fastan grunn, sambæri-
legan við þann sem finna má í heimahúsum. Staðsetning þeirra í sýningar-
salnum afmarkaði undirstöður byggingarinnar. Þegar sýningu á borð við
þessa lýkur er ekkert eftir nema minningin. Rétt eins og um leiksýningu
224 ólafur gíslason skírnir
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 13:00 Page 224