Saga - 2008, Page 24
Í skýrslu Brynjólfs var orðalag þessara skilyrða aðeins að
nokkru mildað, væntanlega til að gera þau aðgengilegri fyrir jafn -
aðar menn. Með stefnuskrá á grundvelli marxisma átti Brynjólfur
við stefnu Karls Marx, eins og Lenín og Stalín höfðu túlkað hana í
byltingarritum sínum. Flokknum var með öðrum orðum ætlað að
vera í eðli sínu marx-lenínskur flokkur sem sækti styrk sinn í virka
og agaða flokksmenn, Kader, og ynni að því að taka völdin á Íslandi
með byltingu, að fyrirmynd Bolsévíkaflokks Leníns, þegar fasisma -
hættunni hefði verið bægt frá.12
Þegar Brynjólfur sagði það skilyrði að tryggja „lýðræði“ innan
flokksins, átti hann við að kommúnistar fengju að keppa við jafnað ar -
menn á lýðræðisgrundvelli um yfirráð yfir væntanlegum sam -
fylkingarflokki og Alþýðusambandinu. Eftir að flokkurinn hefði verið
myndaður og kommúnistar náð þar undirtökum, átti hins vegar alls
ekki að ríkja þar lýðræði í vestrænum skilningi heldur skipulagsregla
Leníns um „lýðræðislegt miðstjórnarvald“. Sam kvæmt þessari reglu
höfðu stjórnarstofnanir flokksins æ meiri ráð eftir því sem ofar dró í
valdastiganum. Félagar voru skyldaðir til að hlýða skilyrðislaust
ákvörðunum flokksins eftir ströngum agareglum, en þeim jafnframt
áskilinn réttur til að taka áður þátt í að móta ákvarðanir og kjósa
flokksyfirvöld — þó að lítið yrði úr því í framkvæmd.13
Þegar Brynjólfur vildi krefjast þess af jafnaðarmönnum að
Sovétríkin yrðu „varin“ átti hann við að flokkurinn skyldi taka
„skilyrðislausa afstöðu með Sovétlýðveldunum“, eins og þetta var
síðar orðað.14 Þegar hann sagði að sameiningarflokkurinn ætti að
halda uppi „vinsamlegum samskiptum við bæði alþjóða sambönd -
in“ átti hann í raun aðeins við Komintern. Alþjóðasamband jafn -
aðar manna vildi ekki halda uppi tengslum við flokka undir
yfirráðum kommúnista, enda ofsótti sovétstjórnin jafnaðarmenn og
þeir höfðu tekist harkalega á við byltingarmenn víða um lönd.15
þór whitehead24
12 „Miðstjórn K.F.Í. kallar saman flokksþing í haust“, Þjóðviljinn 26. sept. 1937,
bls. 3.
13 Sama heimild. — Brynjólfur Bjarnason, Brynjólfur Bjarnason. Pólitísk ævisaga,
bls. 105. — V. I. Lenín, Hvað ber að gera. Knýjandi vandamál hreyfingar okkar,
Ásgrímur Albertsson íslenskaði (Reykjavík 1970), bls. 147–191, 225–237. —
Alfred G. Meyer, Leninism (New York 1962), bls. 92–103.
14 „Miðstjórn K.F.Í. kallar saman flokksþing“, Þjóðviljinn 26. sept. 1937, bls. 3.
15 Leopold H. Haimson, The Mensheviks. From the Revolution of 1917 to the Second
World War (Chicago 1974).
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:37 Page 24