Saga - 2008, Page 42
Þótt skiljanlegt sé að Florin hafi séð nokkra annmarka á fyrir-
ætlunum íslenskra kommúnista (eins og þeir sjálfir), er undarlegt
hve fullkomlega neikvæð viðbrögð hans virðast, að minnsta kosti á
yfirborðinu. Hann leiddi með öllu hjá sér þann einstæða árangur
sem Einar Olgeirsson þóttist eygja með stofnun Sósíalistaflokksins;
íslenskir kommúnistar væru að ná hér forystuhlutverkinu á vinstri
væng úr höndum jafnaðarmanna, einn kommúnistaflokka á
Vesturlöndum. Þegar Florin lét að því liggja að kommúnistum og
vinstri-jafnaðarmönnum væri nær að berjast gegn „klofningsiðju“
hægri arms Alþýðuflokksins, var hann líka furðulega fjarri raun-
veruleikanum. Ekki varð aftur snúið í átökunum sem Héðinn
Valdimarsson hafði efnt til í Alþýðuflokknum, eins og Einar hafði
gert Komintern fulla grein fyrir.
Sú spurning vaknar hvort neikvæð afstaða Florins kunni að ein-
hverju leyti að hafa ráðist af stöðu hans sjálfs á þessum ógnartíma í
Sovétríkjunum. Árið 1934 hafði Florin verið í hópi nokkurra manna
í stjórnmálanefnd þýska kommúnistaflokksins sem lagðist gegn því
að tekin yrði upp samfylkingarstefna. Þessi hópur hafði deilt hart
við þann hluta flokksforystunnar sem naut stuðnings Stalíns og
Dimitrovs, svo sem Wilhelm Pieck og Walter Ulbricht, síðar æðstu
leiðtoga Þýska alþýðulýðveldisins. Þessar deilur snerust einnig um
völd og áhrif í þýska kommúnistaflokknum og Komintern, þar sem
Dimitrov var að hreiðra um sig. Pieck kærði andstæðinga sína fyrir
Stalín og deilurnar enduðu með því að Komintern þvingaði Florin
og tvo félaga hans til hlýðni, en aðrir tveir voru útskúfaðir fyrir
„sértrú“ og síðar myrtir fyrir þá sök. Ógnarástandinu sem ríkti í
skrifstofubákni Kominterns í Moskvu á þessum tíma verður seint
með orðum lýst. Menn eins og Florin reyndu að bjarga eigin skinni
með því að ákæra félaga sína og vini fyrir leynilögreglunni og til
varð eins konar náttúruval sem réðst af hæfni manna við að selja
aðra í hendur nornaveiðurum Stalíns.60
Florin þurfti því að gæta fyllstu varkárni við mat á stofnun sam-
einingarflokks eins og þess sem Íslandsdeild Kominterns vildi
stofna. Ef hann taldist slaka um of á kröfum yfirstjórnarinnar um
víðtæka samfylkingu við jafnaðarmenn, gat það orðið að efni í lífs-
þór whitehead42
60 Der Widerstand gegen den Nationalsozialismus. Die deutsche Gesellschaft und der
Widerstand gegen Hitler. Ritstj. Jürgen Schmädeke og Peter Steinbach
(München og Zürich 1986), bls. 81–82. — Reinhard Müller, Die Akte Wehner.
Moskau 1937 bis 1941 (Berlín 1993), bls. 82, 105–107, 133–134.
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:37 Page 42