Saga - 2008, Síða 70
ig Hannes teflir stöðugt saman þjóðlegri og alþjóðlegri menningu
að honum hefur jafnvel tekist að finna alþjóðlegu tungumáli lita
stað í íslenskri menningu. Þannig líkir Hannes litaskalanum við
rammíslenskan rímnakveðskap, þann hinn sama og tónlist-
armaðurinn Björk hefur sótt nokkuð til um fimmundartóna sína.
Hannes Lárusson segir: „Það eru svipuð tengsl að mínu mati milli
mismunandi lita og rímorða. Tengslin milli rímorða eru ekki merk-
ingarleg en þau eru engu að síður fyrir hendi.“34 Þótt tréskúlptúrar
Hannesar hafi formlíkingu við hefðbundna tréausu eða aðra nytja-
hluti, svo dæmi sé tekið, eru þeir hvorki nothæfir við eldamennsku
né í ætt við minjagripi, enda hugsa myndlistarmenn gjarnan eftir
öðrum brautum en markaðsfulltrúar ferðaþjónustunnar. Mörg
verkanna eru hugsuð sem eins konar erkitýpur íslenskrar menn-
ingar og fjalla beinlínis um „tilvistarskilyrði Íslendings“ og „ástand
menningarinnar“, sem Hannes segir markaða „af einangrun, blekk-
ingum og goðsögnum sem við þrífumst á.“35 Nútíma Íslendingnum
og þeirri ímynd sem hann hefur af sjálfum sér hefur hann til dæmis
tileinkað útskorna tréönd og nefnt verkið Villiandinn (sbr. villiönd).
Meðal annarra táknmynda Hannesar í gegnum tíðina má nefna
áðurnefndar ausur, útskornar bækur, endur, fálka og síðast en ekki
síst lóur, sem hann hefur notað mikið — raunar að því marki að
lóan öðlaðist ígildi „lógós“ eða vörumerkis í list hans.36 Lóan
verður í meðförum myndlistarmannsins fugl fólksins í landinu,
tákn alþýðumenningar og þess að það er líf í landi eftir langan og
dimman vetur. Það er þó ekki sjálfgefið að aðrir en Íslendingar skilji
ímynd lóunnar, „vorboðans ljúfa“, fuglsins sem ættjarðarskáld á
fyrri hluta 20. aldar mærðu í ljóðum sínum, íslensk skólabörn
syngja lof og fjallað er um á vorin á forsíðum íslenskra dagblaða.
auður a. ólafsdóttir70
34 Sjónþing Hannesar Lárussonar, 31. okt. 1998, bls. 12. Sérrit Gerðubergs.
35 Sjónþing Hannesar Lárussonar, bls. 7. Sjá einnig: Auður Ólafsdóttir, „Tálbeitur
norðursins“, Skírnir 174 (vor 2000), bls. 222–227.
36 Ólíklegt er að lóan verði það lógó eða „þjóðarvörumerki“ sem ímyndarnefnd
leitar eftir til að draga að erlenda fjárfesta. Þess má geta að Skotar settu á
laggirnar svipað ímyndarverkefni árið 1995 og vörðu til þess gríðarlegum
fjármunum (5 milljónum punda í upphafi). Reynd voru ýmis vörumerki sem
áttu að standa fyrir Skotland og, líkt og í tillögum íslenskrar ímyndarnefnd-
ar, sýna yfirburði fram yfir önnur lönd, án þess að þau skiluðu árangri eða
þjóðarsátt skapaðist um. Árið 2007, eða tólf árum eftir að ímyndarvinnan
hófst, sættust menn loks á slagorðið: „Welcome to Scotland“. Ímynd Íslands.
Styrkur, staða og stefna, bls. 18.
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:37 Page 70