Saga - 2008, Page 83
að sjá sem sú menningarlega varnarbarátta sem hér hefur verið
stunduð allt frá 19. öld sé fyrir bí. Yngsta kynslóð íslenskra mynd-
listarmanna tekur ekki einungis vestrænni afþreyingarmenningu
opnum örmum heldur sækir að miklu leyti hugmyndaheim sinn og
tjáningarmáta í hana, svo sem í bíómyndir, teiknimyndasögur,
tölvuleiki, tónlist og enska/bandaríska tónlistartexta, sem virðast
vera hvati margra íslenskra samtímalistaverka. Tungumálið virðist
heldur ekki skipta jafn miklu máli og áður í sjálfsmyndinni, ungir
myndlistarmenn hyggja á útrás og í samræmi við það eru heiti
verka og textar sýningarskráa oft á ensku.
Skapandi þversagnir
Hér að framan hefur verið fjallað um fjölmörg íslensk myndlistar-
verk sem eiga það sameiginlegt að takast á við ímynd Íslands og
sjálfsmynd þjóðar með einum eða öðrum hætti og snerta þar með
kvikuna í sjálfsskilningi þjóðar. Verkin fjalla meðal annars um
landfræðilega sérstöðu, menningarleg tengsl eyjunnar við útlönd,
sögulegar rætur Íslendinga, venjur, siði, sérvisku og annað það sem
mótar sjálfsmynd Íslendings í samtímanum og tilfinningu hans
fyrir því að vera hluti af þjóðarheild. Verkin eru af ýmsum toga og
unnin í ólíka miðla, en öll skírskota þau á einhvern hátt til íslensks
samfélags og til þjóðarsjálfsins. Það er ljóst að margir íslenskir
myndlistarmenn líta gagnrýnum augum á íslenskan samtímaveru-
leika og sum verkanna hafa beittan pólitískan undirtón. Dæmi um
það eru verk sem takast á við neyslu- og gróðahyggju, umhverfis-
mál og alþjóðlega fjöldamenningu. Til mótvægis tefla margir fram
sögunni, þjóðlegum háttum og upphefja þau menningarverðmæti
sem fólgin eru í alþýðumenningu (svo sem handverki) fyrri tíma.
Aðrir takast á við molbúahátt og sérlyndi þjóðar, en líkt og sést af
dæmum eru táknmyndir þjóðernis af ýmsum toga og merking
verka langt frá því að vera einhlít.
Af þeim verkum sem hér hefur verið fjallað um má ráða að
ímynd Íslands hafi mörg andlit í heimi íslenskrar samtímalistar og
sé að því leytinu til gjörólík þeirri einsleitu mynd sem skýrsla
ímyndarsmiða forsætisráðuneytis dregur upp af landi og þjóð í
þágu „hagsmunaaðila“ í viðskiptalífi. Þeir myndlistarmenn sem
hér hafa verið nefndir leitast margir við að afbyggja ýmis þrástef
um eðli og einkenni þjóðarinnar og eins og við er að búast má finna
fleiri þjóðarsjálf í verkum þeirra en sem nemur viðskiptamanni í
ímynd íslands, sagan, menningararfurinn 83
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:37 Page 83