Saga - 2008, Page 116
að t.a.m. í fjölmörgum lífshlaupsmyndum er ekki aðeins varpað
ljósi á persónur í samtímanum heldur einnig ævi þeirra almennt;
fortíðin er auðvitað áberandi í myndum um látna einstaklinga, t.d.
um kraftlyftingamanninn Jón Pál Sigmarsson og listakonuna
Rósku. Eins mætti segja að í myndum sem varpa ljósi á íslenskan
samtíma og breytta samfélagshætti liggi til grundvallar ákveðinn
skilningur á fortíðinni. Það verður þó seint sagt að ís lenskir heim-
ildamyndagerðarmenn teygi sig langt aftur í fortíðina í leit að
viðfangsefnum sínum. Stóra undantekningin er Screaming Master -
piece (2005, Ari Alexander Ergis Magnússon) þar sem haldið er á vit
víkingaaldar, en þó í þeim tilgangi að varpa ljósi á íslenska sam-
tímatónlist. Og þannig er fortíðinni allajafna skipað skör lægra en
samtímanum í nýlegum íslenskum heimildamyndum, en í þeim
hefur fortíðin aðeins gildi á meðan hún varpar ljósi á samtímann,
ólíkt því sem viðgengst í sögulegum heimildamyndum, þar sem
fortíðin er í brennidepli og hið eiginlega viðfangsefni. Í stað þess að
nýtt efni tengi „nútíð við fortíð,“ sbr. skilgreiningu Þorsteins
Helga sonar á sögulegum heimildamyndum, tengir eldra efni fortíð
við nútíð í nýlegum íslenskum kvikmyndum.
Hægt er að nálgast samtímaleg viðfangsefni með margvíslegum
hætti, ekki síður en söguleg. Þær áleitnu spurningar er snúa að
kvikmyndun viðfangsefna í samtímanum eru ekki ýkja ólíkar þeim
aðferðafræðilegu spurningum er móta úrvinnslu sagnfræðinga og
ýmissa annarra fræðimanna á fortíðinni/sögunni (svo ekki sé nú
minnst á samtímasögu). Vandamál sem lúta að meðhöndlun, túlk-
un og úrvinnslu heimilda og loks birtingu niðurstöðu þeirra eru
áþekkar í sagnfræði og heimildamyndagerð.4 Mikilvægt er að hafa
í huga að kvikmyndin er texti, þótt fyrir tilstilli myndavélarinnar
virðist oft sem raunveruleikinn sjálfur sé fangaður milliliðalaust.
Hvert svo sem viðfangsefnið kann að vera getur augnaráð vélar-
innar aðeins fangað það frá afmörkuðu sjónarhorni, rétt eins og
afrakstur þess er klipptur saman á einn máta framar öðrum. Þetta
ferli óendanlegra valmöguleika mótar þann veruleika — þá heim-
björn ægir norðfjörð116
4 Mætti í þessu sambandi nefna nokkrar nýlegar greinar um aðferðafræði
sagnfræðinnar sem birtust í þemahefti Ritsins tileinkuðu „Sögu og sjálfs-
myndum“, sjá Ritið 8:1 (2008): Sverrir Jakobsson, „Um fræðileg tæki og tól í
sagnfræði“ (bls. 91–106). — Guðmundur Jónsson, „Sagan og sannleikurinn.
Getur sagnfræðileg þekking verið hlutlæg?“ (bls. 107–128). — Róbert H.
Haraldsson, „Efasemdir um gildi sannleikans fyrir sagnfræðina — og nokkrar
tilraunir til að eyða þeim“ (bls. 129–147).
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:38 Page 116