Saga - 2008, Page 128
Almennt virðist ríkja samkomulag á milli tökumannanna og
Lalla um þá miklu nánd sem er að finna í myndinni og ljóst að
ákveðin mörk eru til staðar sem þeir virða — þótt alltaf sé spurning
um réttmæti þess að mynda fólk undir áhrifum (og á það ekki síður
við um samferðamenn Lalla). Í einu atriði skýtur þó skökku við.
Um er að ræða dramatískt ris myndarinnar, en í því situr Lalli á
bekk við Laugarásveginn og ræðir lát móður sinnar og veltir fyrir
sér eigin endalokum. Þetta er andartak í lífi Lalla sem verður til
fyrir tilstilli myndavélarinnar (sem þýðir auðvitað ekki að hann
hafi ekki getað átt slíkar stundir við önnur tækifæri) — tilfinninga-
hræringar tilkomnar af spurningum frá eða spjalli við heimilda-
myndagerðarmennina. Þetta er dæmi um hvernig þeir grípa inn í
líf þótt látið sé í veðri vaka að það sé fangað án afskipta þeirra. Í
sjálfu sér er ekkert sem mælir gegn því og þetta er t.a.m. eitt helsta
einkenni gagnvirku myndarinnar, en þar er þó sá meginmunur á að
ekki er dregin fjöður yfir íhlutun kvikmyndagerðarfólksins. Það
sem gerir á endanum senuna vafasama er framsetning hennar, þar
sem tilfinningalíf manneskjunnar er „mjólkað“, þ.e. meðhöndlað á
þann veg að það skapi sem mesta dramatík fyrir myndina án tillits
til sjálfrar manneskjunnar sem um ræðir.
Senan sækir fremur í brunn frásagnarmynda en heimildamynda.
Lalli situr á bekknum og grætur við þessar hugrenningar sínar og
er aldrei þessu vant myndaður í nærmynd. Heyrist þá klukkna-
hljómur úr Áskirkju, sem er heldur kunnuglegt meðal úr drama-
tískum frásagnarmyndum. Það kann vel að vera að klukkurnar hafi
hljómað nákvæmlega á þessari stundu, en það vekur óneitanlega
athygli að bjöllurnar hljóma samfellt enda þótt senan sé samsett úr
nokkrum skotum. Það hefur því ljóslega verið tekin ákvörðun um
að nýta bjöllurnar sem dramatískt frásagnarmeðal. Súmmað er enn
nær andliti Lalla, og síðan endurtekin mynd af honum sitjandi á
bekknum úr fjarlægð hinum megin götunnar, áður en súmmað er
aftur, og það með afar dramatískum hætti, að andliti hans frá
sérstæðum vinkli, og fylgir svo ýkt nærmynd þar sem Lalli þerrar
tárin andspænis vélinni. Klykkt er út með enn einu skoti af bekkn-
um en nú tómum, og fyrsta skot næstu senu er nærmynd af veður-
börðum krossi í hvítum snjó sem reynist vera af leiði móður Lalla.
Öll framsetning senunnar miðar að því að búa til frásagnarlegt
drama með aðstoð reyfarakenndra meðala úr smiðju Hollywood.
Ef það er sjálfsagt að mynda manneskju á persónulegu andartaki
sem þessu, gefi hún leyfi sitt fyrir því, skiptir engu að síður máli
björn ægir norðfjörð128
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:38 Page 128