Saga - 2008, Blaðsíða 147
þeirri formbyltingu sem orðið hefur erlendis frá og með sjötta ára-
tugnum, er sannarlega allt annar bragur á þeim en íslenskum kvik-
myndum frá því fyrir kvikmyndavorið. Sýn nýlegu myndanna er
allajafna myrkari en þeirra eldri, auk þess sem sjónarhornið er
orðið miklum mun þrengra og mestmegnis bundið samtímanum.
Hugtakið Íslandsmynd ber með sér þrá eftir að ná utan um land og
þjóð, en eins og hér hefur verið rakið fjalla flestar samtímamynd-
anna um sérstaka persónu, stað eða tónlist. Á stundum er þó að
finna einhvers konar umfjöllun um íslenskt samfélag, og hefur
Hlemmur hvað það varðar talsverða sérstöðu þótt Lalli Johns varpi
reyndar einnig nokkru ljósi á stöðu undirmálsfólks í Reykjavík.
Segja má að títtnefndar myndir Ólafs Jóhannessonar gegni ekki
ósvipuðu hlutverki, með því að beina athyglinni að breyttri sam-
félagsmynd hérlendis, þ.e. fjölmenningarsamfélaginu, sem annars
er ekki viðfangsefni í íslenskri heimildamyndagerð. Það hlýtur þó
að teljast áfellisdómur yfir íslenskri kvikmyndagerð að það eitt að
athygli sé vakin á stöðu undirmálsfólks eða innflytjenda geri þessi
verk þau pólitískustu í hópi nýlegra íslenskra heimildamynda.
Helstu undantekninguna er að finna í Mótmælanda Íslands þar sem
Helgi Hóseasson vekur m.a. athygli á hlut íslenskra ráðamanna í
blóðbaðinu í Írak; á hinn bóginn er grafið undan gagnrýni Helga í
stærra samhengi myndarinnar með því að víkja að geðheilbrigði
hans. Eins og greina má af mótmælum Helga vantar ekki pólitísku
viðfangsefnin, en þau virðast ekki vekja áhuga íslenskra heimilda-
myndagerðarmanna fremur en daglegt líf alls þorra fólks hér á
landi.
Viðfangsefnið skal vera tónlist, staður eða persóna — helst ein-
hver nógu frægur eða nógu skrýtinn.
VIÐAUKI
Myndir sem fjallað er um í greininni
Act Normal (2006, Ólafur Jóhannesson).
Africa United (2005, Ólafur Jóhannesson).
The Amazing Truth About Queen Raquela (2008, Ólafur Jóhannesson).
Annað líf Ástþórs (2007, Þorsteinn Jónsson).
Bítlabærinn Keflavík (2005, Þorgeir Guðmundsson).
Björgunarafrekið við Látrabjarg (1949, Óskar Gíslason).
Blindsker. Saga Bubba Morthens (2004, Ólafur Jóhannesson).
einsleit endurreisn 147
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:38 Page 147