Saga - 2008, Blaðsíða 158
Verslunarleigan sem krúnan fékk í sínar hendur nam að meðaltali
um 25 þúsundum ríkisdala á ári allt einokunartímabilið.21 Þetta má
vissulega kalla arðrán, en þar á það sama við og um skattinn: Það
er ekkert sérstakt fyrir Ísland að verslunarfyrirtæki hagnist eða rík-
issjóðir hafi tekjur af verslunarleyfum. Fyrir Íslendinga hefur það
þó væntanlega skipt nokkru máli að verslunararðurinn fluttist úr
landi en var ekki notaður í hringrás peninga á Íslandi. Hæpið er þó
að nota þetta sem röksemd gegn dönskum yfirráðum á Íslandi
vegna þess að Íslendingar höfðu misst rekstur utanlandsverslunar
sinnar úr eigin höndum áður en landið komst undir konungsvald á
13. öld.22 Þótt Íslendingar hefðu haldið pólitísku sjálfstæði í gegn-
um aldirnar eru því varla líkur til að þeir hefðu náð að reka utan-
landsverslun sína sjálfir. Að verslunararðurinn fluttist úr landi
getur því varla talist sök dönsku einokunarverslunarinnar.
Hagur af stjórn Dana
Framlög Dana til íslensks samfélags voru einkum af tvennu tagi,
annars vegar hlutdeild í stjórn samfélagsins, hins vegar aðgangur
að menntun.
Um stjórnina er það oft sagt að Noregskonungur hafi komið á
friði og reglu á Íslandi þegar landið gerðist skattland hans.23 Ég sé
á hinn bóginn enga sérstaka ástæðu til að ætla annað en að Íslend-
ingar hefðu getað haldið uppi lögum og reglu á landinu sjálfu
þegar frá leið. Ófriðar- og upplausnartímabil eins og Sturlungaöld
gengu líka yfir konungsríki á miðöldum. Norska ríkið hafði gengið
í gegnum aldarlangar sífelldar borgarastyrjaldir frá 1130 og fram
undir 1230. Danska konungsríkið var í hliðstæðri upplausn á sama
tíma og Íslendingar gáfust upp á sjálfstæðinu. Þeirra upplausnar-
tímabil var líka um það bil aldarlangt, milli 1240 og 1340. Bæði ríkin
náðu sér eftirminnilega eftir þessi tímabil; Norges storhetstid hófst
gunnar karlsson158
21 Hagskinna, bls. 734 (tafla 15.1).
22 Bogi Th. Melsteð, „Ferðir, siglingar og samgöngur milli Íslands og annara
landa á dögum þjóðveldisins,“ Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að
fornu og nýju IV (Kaupmannahöfn og Reykjavík 1907–1915), bls. 734–761,
810–821, 838–840, 842–847, 867–885.
23 Einar Ól. Sveinsson, Sturlungaöld. Drög um íslenzka menningu á þrettándu öld
(Reykjavík 1940), bls. 163–164. – Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson,
Íslandssaga til okkar daga (Reykjavík 1991), bls. 120. — Íslandssagan í máli og
myndum, bls. 77.
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:38 Page 158