Saga - 2008, Page 165
hann fengið eftir glímu þeirra félaga, af því að þá hafi margur
fengið harðan skell svo að glumið hafi í hálffreðinni jörðinni.
Á þessum grasbletti var Glímufélagið Ármann stofnað af
20–30 ungum og glímumóðum mönnum, sem voru búnir að
glíma þar lengi kvölds, undir heiðum himni við stjörnublik og
norðurljósalog. Fagnaðaróp þessara ungu manna við stofnun
fyrsta íþróttafélags landsins barst út um bæinn í kvöldkyrrð -
inni og var fyrsti boðberi markvissrar íþróttaþróunar.1
Þessi frásögn er með goðsagnakenndum blæ og hefur lengi verið
fyrirmynd þeirra sem skrifað hafa um félagið. Í frásögn Kjartans
eru nokkrar sögulegar staðleysur;2 hér verður þó aðeins fjallað um
eina þeirra, það er að segja meintan stofndag Ármanns 15. desem-
ber 1888. Kjartan var reyndar í góðri trú, því fyrir sér hafði hann
heimild sem hann treysti, Ármannsskjalið svokallaða, sem síðar
verður vikið að.
Rannsóknir mínar á sögu íþrótta- og ungmennafélaga á undan-
förnum árum hafa leitt mig á slóðir nýrra heimilda. Hér verða þær
helstu raktar í tímaröð og þannig reynt að bregða ljósi á hvernig
goðsögnin um Glímufélagið Ármann varð til.
Helgi Hjálmarsson og Pétur Jónsson
Fyrst skal kynna til sögunnar þá tvo menn sem goðsögnin telur
vera aðalstofnendur Ármanns, Helga Hjálmarsson prest (1867–1941)
og Pétur Jónsson blikksmið (1856–1908). Pétur Helgi Hjálmarsson
var fæddur 14. ágúst 1867 að Vogum við Mývatn. Hann fór til náms
í Lærða skólanum árið 1887 og útskrifaðist sem stúdent þaðan
vorið 1892. Þá settist hann í Prestaskólann og lauk þar guðfræði -
námi vorið 1894. Þar með var lokið veru hans í höfuðstaðnum og
veturinn 1894–1895 var hann barnakennari á Húsavík. Helgi
goðsögnin um glímufélagið ármann 165
1 Kjartan B. Guðjónsson, „Ágrip af sögu glímunnar,“ Árbók íþróttamanna 1947,
bls. 153–154.
2 Í grein Kjartans er að finna a.m.k. fjórar staðleysur: 1) Glímufélagið Ármann
var ekki stofnað 15. des. 1888. 2) Helgi Hjálmarsson kom hvergi nærri stofnun
Ármanns. 3) Helgi Hjálmarsson var aldrei í Bessastaðaskóla því sá skóli var
lagður niður árið 1846, 21 ári áður en Helgi fæddist. 4) Ármann var langt í frá
fyrsta íþróttafélag landsins jafnvel þótt miðað sé við árið 1888. Þá var til dæmis
löngu búið að stofna þrjú íþróttafélög í Reykjavík; sjá Hrefna Róbertsdóttir,
Reykjavíkurfélög. Félagshreyfing og menntastarf á ofanverðri 19. öld. Ritsafn Sagn -
fræðistofnunar 26 (Reykjavík 1990), bls. 122–127.
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:38 Page 165