Saga - 2008, Page 179
sveinbjörn rafnsson
Hvað er Landnámabók?
Hvað er Landnámabók?1 Landnámabók er í grundvallaratriðum og
að byggingu upptalning á svokölluðum landnámsmönnum sem
fyrstir eiga samkvæmt henni að hafa tekið land til eignar á Íslandi,
einskonar skýrsla eða skrá um þessa landtökumenn og landið sem
þeir tóku. Þessi upptalning er sett fram í staðfræðilegri röð réttsæl-
is umhverfis allt Ísland samkvæmt hinni fornu fjórðungaskipan.
Upptalning landnáma landnámsmannanna nær þannig til alls
Íslands. Íslandi var til forna skipt í fjóra fjórðunga og upptalning-
unni í Landnámu er skipt eins. Landnámsmennirnir eru nálægt 430
og landnám Íslands jafnmörg samkvæmt Landnámu. Sjá má af
þessu að í Landnámabók er gríðarlega stórt safn persónu- og
staðþekkingar enda skipta mannanöfn og örnefni þar þúsundum.
Þá er líka ljóst að enginn einn maður hefur getað lagt allt þetta efni
til, höfundar verksins hljóta frá upphafi að vera margir. Á hinn
bóginn eru efnistökin samræmd og skipuleg, en það bendir til
miðlægrar ritstjórnar verksins, stjórnarstofnunar þar sem lögð hafa
verið á ráð um smíði þessa rits. Finnur Magnússon benti á það
þegar árið 1838 að Landnáma hlyti upphaflega að hafa orðið til í
tengslum við Alþing við Öxará þar sem menn söfnuðust saman
árlega til forna hvaðanæva af landinu.2
Í Landnámu er talið að landnám á Íslandi hafi farið fram á tíma
Haralds konungs hárfagra og Hákonar jarls Grjótgarðssonar í
Saga XLVI:2 (2008), bls. 179–193.
1 Grein þessi er að stofni til erindi sem flutt var á málþinginu „Þjóðlendumál og
eignarréttur“ í Snorrastofu í Reykholti, 8. mars 2008.
2 Grønlands historiske mindesmærker I (Kjøbenhavn 1838), bls. 16. Hér verður ekki
rætt sérstaklega um varðveislu gerða Landnámabókar, en sjónum einkum
beint að tilurð og upphaflegum markmiðum hennar. Viðhorf manna til Land -
námu hafa breyst mikið, bæði á miðöldum og á síðari öldum, og bera gerðir
hennar og útgáfur þess merki. Áhrif hennar hafa einnig verið misjafnlega
mikil í aldanna rás. Um það er nokkuð fjallað í Sveinbjörn Rafnsson, „Frá land-
námstíma til nútíma“, Íslenskir sagnfræðingar. Seinna bindi. Viðhorf og rannsókn-
ir (Reykjavík 2002), bls. 105–112 (upphaflega í Skírni 162 (1988) bls. 317–329) og
Sveinbjörn Rafnsson, Sögugerð Landnámabókar. Um íslenska sagnaritun á 12. og
13. öld (Reykjavík 2001).
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:38 Page 179