Saga - 2008, Side 184
náma endurspeglar að sumu leyti þennan gamla norðurevrópska
jarðeignarrétt með upprunagoðsögum um heiðna forfeður liggj-
andi í haugum í löndum manna, sbr. norsku lagaorðin óðalshaug-
ur og haugsóðal. Þá er í Landnámu greinileg hneigð til að nefna
forn höfuðból umfram aðra bæi, eins og sýnt hefur verið fram á.8
Loks er að nefna að sjálf uppbygging Landnámu, þ.e. fjórðunga-
skiptingin, er nátengd gömlum íslenskum jarðeignarrétti eins og ég
mun koma frekar að síðar.
Þriðja hugmyndin gengur eiginlega svo skammt að henni er
hvorki hægt að játa né neita og varla unnt að koma við nokkrum
rökum. Hún er sú að Landnáma sé rituð af fróðleiksfýsn vegna
þeirrar fróðleiksstefnu sem uppi hafi verið þegar hún var gerð —
annarra ástæðna til ritunar Landnámu sé ekki þörf að leita.9 Alveg
er þó sneitt hjá því að ræða um hvers konar fróðleik Landnáma hafi
að geyma og þarna er því alls ekki svarað spurningunni um rit-
unarástæður hennar.
Meginefni Landnámbókar
Meginefni Landnámabókar er land og menn, þ.e. tengsl lands og
manna. Viðfangsefni hennar hlýtur að vera eignarréttur til lands.
Einar Arnórsson kemst svo að orði um efni Landnámabóka: „Land -
námabækur hafa greinargerðir um það, hver slegið hafi eign sinni
á svo að segja hvern byggilegan blett um land allt, eða fengið eign-
arrétt á landi með öðrum hætti (kaupi, að gjöf o.s.frv.).“10 Þetta er
augljóslega rétt svo langt sem það nær. Eignarréttur til lands er
kjarni Landnámabókar og það skýrir ótal margt í ritinu. Til dæmis
hinar broslegu og uppspunnu sagnir um hvernig landnámsmenn
hafa átt að helga sér land með táknrænum athöfnum, með eldi, með
því að leiða kvígu um landið, með því að gefa heklu flekkótta og
tryggja þannig landsgjöf á móti, með því að skjóta spjóti yfir land,
með því að láta guðlega forsjón vísa sér til landa með öndvegissúl-
sveinbjörn rafnsson184
8 Sveinbjörn Rafnsson, Studier i Landnámabók. Kritiska bidrag till den isländska
fristatstidens historia (Lund 1974), bls. 188–196. Sjá einnig Sveinbjörn Rafns -
son, Sögugerð Landnámabókar, bls. 10–11.
9 Jón Jóhannesson, „Sannfræði og uppruni Landnámabókar“, Saga II (1954–
1958), bls. 228, sbr. Jón Jóhannesson, Gerðir Landnámabókar, bls. 220.
10 Landnámabók Íslands. Einar Arnórsson bjó til prentunar (Reykjavík 1948), bls.
xxxi.
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:38 Page 184