Saga - 2008, Qupperneq 187
vísu.14 Það gerðu lagamenn í öðrum Evrópulöndum á sama tíma
þótt það væri ekki með sama hætti og í Grágás. Fyrir þetta hlaut ég
gagnrýni.15 Sagnfræði getur verið svolítið erfið fræðigrein þeim
sem hana stunda, einkum þegar geisar stórpólitískt kalt stríð þar
sem lénsskipan miðalda er pólitískt bitbein eða þegar munnlegur,
germanskur og þjóðernissinnaður uppruni Grágásarlaga er gamalt
hugmyndafræðilegt hjólfar sem fræðimenn komast ekki upp úr.
Þegar ég benti á rómarréttarleg áhrif í landeignarrétti Grágásar
var það kallað atlaga að Grágás. Fyrri fræðimenn bentu þó á það
fyrir löngu að Lex Rhodia de iactu, hin ródeysku lög um kast, væru í
Grágás.16 Það er augljóslega misskilningur að með þessu séu menn
í einhvers konar árásarstríði gegn Grágás. Grágásarlög eru ekki
heilagt germanskt lagasafn úr ókannanlegri munnlegri geymd,
óflekkað af lénskum miðaldarétti og rómarrétti. Þau voru skráð á
tímanum frá fyrstu áratugum 12. aldar og fram yfir miðja 13. öld og
sýna fyrst og fremst lög og lagakunnáttu þess tíma.
hvað er landnámabók? 187
14 Sveinbjörn Rafnsson, „Grágás og Digesta Iustiniani“, Sjötíu ritgerðir helgaðar
Jakobi Benediktssyni 20. júlí 1977 (Reykjavík 1977), bls. 720–732. Hugsanlegt er
einnig að Institutiones Iustiniani II. 1. 22–23 standi að baki þessum Grá gásar -
ákvæðum. Síðari athuganir vörðuðu lausafé og hnykktu enn frekar á rómar-
réttarlegum áhrifum í Grágás, sjá Sveinbjörn Rafnsson, „Forn hrossreiðarlög
og heimildir þeirra. Drög til greiningar réttarheimilda Grágásar“, Saga
XXVIII (1990), bls. 131–148. Áhrif frá lærðum rómverskum rétti gætu einnig
verið í Íslendingasögum. Þannig gæti frásögn Egils sögu Skallagríms sonar af
ætlan Egils að sá silfri úr kistum sínum á Lögbergi borið með sér þekkingu á
Institutiones Iustiniani II. 1. 46, þar sem rætt er um rómverska pretora og
konsúla sem kasta gjöfum (qui missilia iactant) til lýðsins og eignast þær hver
sem vill. Sömuleiðis gætu setstokkar þeir sem nefndir eru í Eiríks sögu rauða,
Landnámugerðunum Sturlubók og Hauksbók og Eyr byggju borið með sér
þekkingu á Institutiones Iustiniani II. 1. 29, þar sem rætt er um málssókn
vegna innsettra eða inngreyptra húsaviða (actio de tigno iniuncto).
15 Gunnar Karlsson, Goðamenning. Staða og áhrif goðorðsmanna í þjóðveldi Íslend-
inga (Reykjavík 2004), bls. 34–39. Gunnar Karlsson, Inngangur að miðöldum.
Handbók í íslenskri miðaldasögu I (Reykjavík 2007), bls. 231.
16 Páll Eggert Ólason, The Codex Regius of Grágás. Corpus codicum Islandicorum
medii aevi III (Copenhagen 1932), bls. 10. Ólafur Lárusson, „Stjórnarskipun
og lög lýðveldisins íslenzka“, Lög og saga (Reykjavík 1958), bls. 85. Þeir reyna
þó báðir að neita því að þessi rómversku lög í Grágás séu þar vegna áhrifa
frá rómverskum rétti. Með opnari huga eru þessi mál rædd í yfirlitsgrein,
Sigurður Líndal, „Um þekkingu Íslendinga á rómverskum og kanónískum
rétti frá 12. öld til miðrar 16. aldar“, Úlfljótur 50 (1997), bls. 243–273, þó að
þessara merku laga sé ekki getið þar sérstaklega.
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:38 Page 187