Saga - 2008, Side 196
Kvittanir fyrir greiðslum í búpeningi, afurðum eða öðru þurfti
síður að varðveita eftir að leg var fengið í klaustrinu. Því er nánast
víst að dæmin eru fleiri, sennilega fjölmörg.
Hlutur Viðeyjarklausturs
Klaustrið í Viðey var af reglu heilags Ágústínusar. Bræður þeirrar
reglu voru nefndir kanokar. Þeir voru yfirleitt prestvígðir og sinntu,
auk messu- og tíðasöngs í klausturkirkjunni, gjarnan prests þjónustu
annarri og sálgæslu, ekki síst sálumessum og útförum.8 Vart verður
dregið í efa að þannig hafi það einnig verið bæði í Viðey og öðrum
klaustrum hérlendis sem fylgdu Ágústínusarreglunni.
Báðum megin Viðeyjarsunds eru örnefni sem benda til líkflutn-
inga yfir sundið. Landmegin eru Líkavarða, Lík(a)tó og Líka -
brekka, öll í næsta nágrenni við Köllunarklett, þar sem kallað var á
ferju utan úr Viðey.9 Handan sundsins, úti í eyju, eru svo Þvotthóll
og Líkaflöt rétt ofan við Bæjarvörina. Þar segja munnmæli að lík
eða umbúnaður þeirra hafi verið þvegin og þurrkuð, ef slæmt var í
sjó og ágjöf mikil, og síðan búið um aftur. Þaðan á svo líkfylgd að
hafa haldið til kirkju.10
Í Viðey var heilög María höfuðdýrlingur. Hún var langvinsæl-
ust helgra manna, en að auki var klaustrið helgað 14 öðrum vin-
sælum dýrlingum, þannig að trúlega hafa margir fundið þar sinn
verndar- eða uppáhaldsdýrling.11 Þetta getur allt hafa laðað fólk að
Viðey sem hinsta hvílustað á jörð. En þetta var klaustrinu einnig
góð tekjulind. Hugsanlegt er að þeir sem guldu osttoll til Viðeyjar,
og voru þannig skildir undir bænahald bræðra og kennimanna í
Viðey sér til miskunnar og sáluhjálpar, eins og segir í máldaganum
sem getið er hér að framan, hafi áunnið sér rétt til legs og yfirsöngs,
líkt og þeir sem greiddu beinlínis fyrir þá þjónustu.
Því má hér við bæta að stór kirkjugarður í Viðey styður þá kenn-
ingu að margir hafi kosið sér að liggja þar.
þórir stephensen196
8 Jarl Gallén, „Augustinkorherrar,“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middel -
alder I (Viborg 1980), d. 280–283.
9 Ari Gíslason, Örnefnaskrá, Reykjavík og Seltjarnarnes, án ártals, varðveitt í
Stofnun Árna Magnússonar, Örnefnasafni, bls. 13. — Árni Óla, Nokkur ör -
nefni í Reykjavík, 1973, varðveitt í Stofnun Árna Magnússonar, Örnefnasafni,
bls. 3. — Árni Óla, Reykjavík fyrri tíma II (Reykjavík 1985), bls. 425 og 429.
10 Árni Óla, Reykjavík fyrri tíma III (Reykjavík 1986), bls. 439 og 443.
11 Íslenzkt fornbréfasafn I, bls. 489.
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:38 Page 196