Saga - 2008, Síða 245
ráðstefnuritinu er mikið fjallað um tungumál og bókmenntir. Sögulegir
þættir eru þó einnig þar á meðal, m.a. umfjöllun um viðhorf í löndunum,
þ.e. hvors til annars, fiskveiðar á fyrri öldum og stöðu Íslands og Færeyja á
bresku áhrifasvæði fram að seinni heimsstyrjöld. Leitast hefur verið við að
birta greinar sem fjalla um svipað efni annars vegar út frá íslenskum og
hins vegar færeyskum sjónarhóli. Allmargir íslenskir sagnfræðingar hafa
tekið þátt í frændafundunum og eiga greinar í ritunum.
Sambærilegt form er á hinum fjórum bókunum. Fyrir sagnfræðinga eru
nokkrar áhugaverðar greinar í öðru bindinu. Þar er meðal annars fjallað um
efni tengt byggðasögu, stöðu Íslands og Færeyja í dansk-norska ríkinu og ár
síðari heimsstyrjaldar. Einnig er rætt um örnefni, þjóðtrú, mállýskur, listir
og hátíðahöld. Í þriðja bindinu er efnið fjölbreytt. Að hluta til er fylgt því
formi að fjalla um hvert efni frá sjónarhóli bæði Íslands og Færeyja og þannig
er t.d. tekið á upphafi kristni, ungmennafélagshreyfingunni og launavinnu
kvenna á 20. öld. Einnig eru nokkrar greinar um tungumálin ís lensku, fær-
eysku og dönsku og samspil þeirra á milli. Auk þess er fjallað um hafið í
sjálfsmynd Íslendinga og botndýrarannsóknir í Norðurhöfum. Í síðustu
tveimur bindunum er lögð meiri áhersla á samtímann en í fyrri bókunum,
t.a.m. fjallað um atvinnulíf, byggðamál, ferðamennsku og sveitarstjórnar-
mál. Menningin er þó áfram til umfjöllunar; þýðingar, bókmenntir, brjósta-
gjöf, sjálfstæðismál, landhelgismál og áhrif fjölþjóðlegra hug myndastefna.
Í heild má segja að í þessum bókum sé fjallað um ótrúlega fjölbreytt efni
og margar greinar eru mjög áhugaverðar. Misjafnt er hvort höfundar hafa
aukið við fyrirlestra sína fyrir útgáfuna eða birt þá lítið breytta. Greinarnar
eru þó flestar vel búnar neðanmálsgreinum og heimildaskrám og ættu því
að gagnast vel í framtíðarathugunum á þessum sviðum. En þótt töluverð
vinna hafi verið lögð í að finna fyrirlesara og greinarhöfunda sem gætu
fjallað um sambærileg efni, allt frá kristnitöku um árið 1000 til breytinga á
sveitarstjórnarmálum síðustu ára, sakna ég inngangsgreina eða umfjöllun-
ar sem vinnur úr þeim forða þekkingar sem hér er búið að draga saman. Ís -
land og Færeyjar tilheyrðu sama konungi, hafa í mörgu haft sambærilega
afkomu, byggða á sauðfé og fiski, og tala náskylt tungumál sem fáir aðrir
skilja. Samt er ýmislegt sem skilur þjóðirnar að og ekki síður áhugavert að
velta fyrir sér í hverju sá munur er fólginn. Í því samhengi er úr töluverðu
að moða, því efniviðurinn er umtalsverður í þessum fimm bókum.
Greinasöfn á borð við þessi, sem byggjast á ráðstefnum, hverfa gjarnan
í bókaflóðinu, en þar er þó oft margt gagnlegt að finna. Í þessum bókum er
gerð ákveðin tilraun með því að birta greinar á færeysku fyrir íslenska les-
endur og á íslensku fyrir þá færeysku. Það er ekki alveg einfalt að skipta
milli þessara tungumála án undirbúnings eða þjálfunar, en tilraunin er vel
þess virði. Rit af þessu tagi eiga a.m.k. að geta stuðlað að auknum skilningi
milli Íslands og Færeyja, bæði á tungumálasviðinu og því menningarlega.
Hrefna Róbertsdóttir
ritfregnir 245
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:38 Page 245