Skírnir - 01.09.2002, Page 31
SKÍRNIR
AÐ HUGSA í MYNDUM
253
Rímið (hendingarnar) fellur dálítið einkennilega í áhersluliðunum,
en við getum hugsað okkur að þessar vísur hafi verið sungnar.
Kristi er lýst sem sunnuöðlingi í fyrri hlutanum, en sem byrstrand-
ar bragningi (konungi vindstrandar) í þeim síðari, þegar Jóhannes
stendur í styr ströngum umlukinn kvöl Krists og gráti móður
hans. Ahrifamikil andstæða er dregin upp á milli helminganna. I
hinum fyrri er kyrrlát guðsmynd þar sem Kristi er lýst sem sól-
konungi, en í hinum síðari hefur dregið fyrir sólu og Kristur er
konungur strandar vindsins, sem er líking fyrir himininn. Þau þrjú
standa ein í styr ströngum (Kolbeinn nefnir ekki hinar konurnar),
í óveðrinu, og aðrir postular hvergi nærri. Þessi mynd af krossfest-
ingunni er algeng í íkónagrafíu. Jóhannes er oft málaður kvenleg-
um dráttum. Hann var yngstur lærisveinanna og er alltaf skegg-
laus á krossfestingarmyndunum.59 En einatt má þekkja hann af
táknum hans, sem var bókin í myndum af krossfestingunni, en
annars örn eða kaleikur, með nöðru upp úr.é0 Handritamyndirnar
sýna vel kvenleika Jóhannesar, en birta einnig sorg Maríu.
Hin málaða mynd af krossfestingunni og skáldleg mynd vís-
unnar eru í raun sams konar íkónagrafía, þó að formið sé ólíkt.
Myndskynjunin og táknin eru hin sömu, og hvort tveggja byggist
á sjónrænni skynjun. Þó er rangt að leggja að jöfnu tjáningu
myndlistarmannsins og skáldsins. Hughrifin sem verk þeirra valda
eru ólík. Lýsing Kolbeins á Maríu grátandi við krossinn er áhrifa-
ríkari og lausbeislaðri en stílfærðar myndir listamannanna. Skáld-
ið túlkar um leið og dregin er upp mynd af sorg Jóhannesar og
Maríu; þau standa yfirgefin við krossinn og verða vitni að kvöl
Krists, en um leið lyfta kenningarnar honum til himna. Að því
leyti er svigrúm skáldsins meira en myndlistarmannsins. Kolbeinn
og Nikulás velja orð sín af kostgæfni, og þau skjóta hugsunum
þeirra í margar áttir í senn, en við þurfum að þekkja hugmynda-
heim þeirra til að skilja hvað þeir eru að fara. Fræðibækur miðalda
í kenningasmíð sýna svo að ekki verður um villst að dróttkvæða-
listin var ekki stöðnuð listgrein á síðmiðöldum. Þvert á móti var
59 Björn Th. Björnsson 1954:96.
60 Björn Th. Björnsson 1954:94.