Skírnir - 01.09.2002, Page 36
258
SVERRIR TÓMASSON
SKÍRNIR
Þórðarson heitir sá sem ritað hefur fyrri hluta bókar og byrjað á
bl. 4v, en Magnús Þórhallsson reit fyrstu blöð bókarinnar, lv-4r
og hefur síðan hafið aftur verkið í neðstu línu á 134. bl. og skrifað
síðan bókina á enda fyrir utan þau blöð sem bætt var í hana á 15.
öld (Louis-Jensen 1969). Magnús hefur aukþess skrifað örfáar lín-
ur í þeim hluta bókarinnar sem Jón ritaði og sýnir það að þeir hafa
verið samtýnis þegar bókin var sett saman. Magnús Þórhallsson
hefur lýst alla bókina og hann virðist hafa ráðið hvernig efninu var
skipað niður (Ólafur Halldórsson 1990:201-205).
Kvæðið Noregs konunga tal hefur ekki verið í miklum metum
meðal bókmenntafræðinga en allmargir textafræðingar hafa um
það fjallað og einkum þá í sambandi við upphaf konungasagna og
þátt forföður Oddaverja, Sæmundar hins fróða Sigfússonar, í þeirri
sagnaritun. Til hans vitnar Ari fróði og klausa í Ólafs sögu
Tryggvasonar eftir Odd munk hefur verið talin til verka Sæmund-
ar. Danski fræðimaðurinn Svend Ellehoj, sem skrifaði mikið verk
um elstu norrænu sagnaritin, Studier over den ældste norrone hi-
storieskrivning (1965), taldi ugglaust að að baki kvæðisins væri rit
Sæmundar og studdi það meðal annars þeim rökum að áratal kon-
unga í Fagurskinnu og í Noregs konunga tali bæri saman. Ályktaði
hann þess vegna að rit Sæmundar hefði verið eins konar krönika,
þar sem aðaláherslan hefði verið lögð á ríkisstjórnarár hvers höfð-
ingja; fyrir utan þessar staðreyndir gæti kvæðið sjálft ekki sagt
okkur neitt um hvers konar snið hefði verið á verki Sæmundar.
Það er ekki ætlun mín hér að ræða frekar um flókin rittengsl
elstu íslensku sagnaritanna eða upphaf konungasagna, því síður að
gera grein fyrir sögulegu heimildargildi þeirra. Vert er þó í þessu
samhengi að velta fyrir sér tvennu: Hvernig stendur á því að ís-
lenskir menn sem búið hafa í landinu um nær þriggja alda skeið
hafa svo mikinn áhuga á norskum og dönskum konungum? Hafi
hér verið einhvers konar höfðingjaveldi margra misvoldugra
manna, eins og sagnfræðingar hafa leitt líkur að, hvernig litu þeir
þá á vald eins manns, konungs eða þjóðhöfðingja? Og í þriðja lagi:
Getur kvæði eins og Noregs konunga tal hjálpað okkur til að
komast að hugmyndum fyrri tíðar manna um valdstjórn eða álit
þeirra á forkólfunum?