Skírnir - 01.09.2002, Page 42
264
SVERRIR TÓMASSON
SKÍRNIR
Kvæðið Noregs konunga tal sver sig að flestu leyti til venju-
bundins konungalofs í íslenskum kveðskap. Því hefur verið hald-
ið fram að fyrirmynd þess sé Ynglingatal, einkum þar sem það vís-
ar til legstaða konunga. Sú hefð kann þó að hafa verið mun algeng-
ari en svo að binda verði hana við tvö kvæði. Ástæðan fyrir því að
menn hafa bent á Ynglingatal sem hugsanlega fyrirmynd er sú að
Snorri Sturluson þekkti það og notaði í Ynglinga sögu og það
kann að hafa verið til í Odda þegar Snorri ólst þar upp. Sökum
þessa m.a. eignaði þýski fræðimaðurinn Eugen Mogk Snorra Nor-
egs konunga tal. Hann bar saman kenningar og heiti þess við
Háttatal og fann svipaða meðferð skáldamáls. Hann benti m.a. á
heitin ræsir, gramur, siklingur, lofðungur, hilmir, vísi og jöfur
(Mogk 1888:242). Öll þessi konungaheiti koma bæði fyrir í Nor-
egs konunga tali og í Háttatali Snorra en eru reyndar algeng í öðr-
um kveðskap um konunga, hvort sem hann var lof eða last. Það
gæti þó stutt tilgátu Mogks að um þessi heiti flest fjallar 81. kafli
Skáldskaparmála (Snorra Edda 1931:181-182). En sökum þess hve
algeng þau eru í kveðskap eru þau ekki ályktunarhæf um sértæk-
an stíl eins skálds. Á sama hátt þurfa formúlur, eins og þá hefi eg
heyrt, það er mér (hefir) sagt verið, ekki að vitna til sömu munn-
legra heimilda sem vísað er til í formála Heimskringlu. Líkindin
við Háttatal Snorra mætti fremur skýra á þann veg að þar hafi efn-
isval ráðið orðalagi. Mogk gerði sér að vísu grein fyrir þessu en
hann benti á að Noregs konunga tal bæri þess merki að vera ort af
byrjanda, og hafði þá bersýnilega í huga veru Snorra Sturlusonar í
Odda; hann hefði viljað gjalda Jóni Loftssyni fósturlaunin. Þess-
um skoðunum mótmælti Finnur Jónsson (II 1920-1924:110-112).
Síðan hafa fræðimenn ekki rætt um höfund kvæðisins.
Mér þykir, eins og Mogk, næsta einsýnt að bendla kvæðið við
Odda; í fyrirsögn kvæðisins í Flateyjarbók er Sæmundur fróði
sagður hafa ort það. Víst er að hann er talinn heimildarmaður um
æviferil tíu konunga, landreka eins og þeir heita í 40. erindi. Sæ-
mundur fróði deyr 1133, 77 ára gamall, að minnsta kosti 10 árum
eftir að Loftur sonur hans gekk að eiga Þóru dóttur Magnúsar
konungs berfætts. Það er rétt hugsanlegt að Magnús Þórhallsson
hafi ruglast á nöfnum þegar hann skrifaði upp kvæðið; í forritinu