Skírnir - 01.09.2002, Page 46
SKÁLD SKÍRNIS
BRAGI ÓLAFSSON
Svalur vindur
Það var held ég örugglega ekki af ásettu ráði sem ungur maður í Aust-
urstræti sló til gamallar konu með þeim afleiðingum að hún datt í stétt-
ina. Ég var ekki eina vitnið að atburðinum, það var margt um manninn í
götunni þrátt fyrir að svalur vindur léki um hana þennan dag, og mig
grunar að flestir sem sáu til hafi verið sammála um að ungi maðurinn hafi
einungis ætlað að teygja úr sér þegar vinstri hönd hans skall á andliti kon-
unnar.
Þótt konan hafi verið um það bil hálfri öld eldri en maðurinn var hún
talsvert hærri í loftinu en hann, sem var óneitanlega einkennilegt í ljósi
þess að mannslíkaminn styttist þegar sígur á seinni hluta ævinnar. Sú stað-
reynd að það skyldi vera maðurinn sem sló konuna niður en ekki hún
hann, fékk mig til að velta vöngum yfir því svolitla stund að í samskipt-
um þjóðanna, það er að segja í samskiptum ríkisstjórna landanna, er það
gjarnan yngri þjóðin - sú þjóð sem styttri sögu hefur að baki sem sjálf-
stæð þjóð og svo framvegis - sem veitir eldri þjóðinni náðarhöggið, þeg-
ar það á annað borð gerist.
Ég gat ekki séð að honum þætti það miður, manninum, að hafa vald-
ið konunni óþægindum. Hann hjálpaði henni á fætur en sneri sér svo um-
svifalaust að öðrum manni sem hann hafði verið að tala við á því augna-
bliki sem hann reiddi höggið, og hélt áfram að spjalla eins og ekkert hefði
í skorist. Hann var í einhvers konar einkennisklæðnaði; dökkbláum ull-
arjakka og það glansaði á gyllta hnappa á ermunum. Ljóst liðað hár hans
flaksaðist í vindinum þar til hann beislaði það með derhúfu sem virtist
vera í stíl við jakkann, en ég sá ekki nægilega vel framan á manninn til að
greina hvernig embætti hann gegndi - það er að segja ef hann gegndi yf-
irhöfuð einhverju embætti.
Konan sem hann sló niður í götuna var hins vegar dáin nokkrum vik-
um síðar. Ég las um það í blaðinu. Ég þekkti andlit hennar á myndinni
sem fylgdi tilkynningunni; það sneri fram á við, að lesendum blaðsins, en
það var þó greinilegt að henni eða ljósmyndaranum hafði fundist að ann-
ar vanginn ætti að njóta sín betur en hinn.