Skírnir - 01.09.2002, Page 60
282
MARGRÉT EGGERTSDÓTTIR
SKÍRNIR
Yfirvofandi dómur
Annar sonur Einars í Eydölum var Ólafur prestur í Kirkjubæ.
Kvæði hans, Árgali, varð þjóðfrægt á hans dögum þótt það væri
fyrst prentað 1757, löngu eftir dauða skáldsins.42 íslandi er þar
í upphafi lýst sem vænu víntré, sem Drottinn sjálfur plantaði og
vígði. Hann sendi landinu góða kónga og ágæta kennimenn. En
þjóðin hefur brugðist og dómurinn vofir yfir. Teikn þess birtast
í lofti, á landi og í hafi. Hér tekur við mögnuð heimsendalýsing,
sólin missir birtu sinnar, sumrin eru orðin styttri en þau voru,
hræðileg óveður geisa og fella menn og dýr, undarlegar skepnur
veiðast úr sjónum, það rignir ormum og Hekla spýr eldi. Sams
konar hugmyndir um táknræna merkingu náttúrufyrirbæra
voru allsráðandi um alla Evrópu á þessum tíma.43 Kvæðið snýst
síðan upp í harða ádeilu á erlent vald og innlenda höfðingja,
bæði veraldlega og andlega; enginn snýst Islandi til varnar.
Kvæðinu lýkur á mjög innilegri bæn til Guðs fyrir landi og
þjóð. Og í þessari einlægu, heitu bæn eru Guði sjálfum gefnar
ýmsar góðar ábendingar, t.d. hvort hann geti ekki hlíft Austur-
landi, látið nægja þær plágur sem dunið hafa yfir hina þrjá hluta
landsins; í annan stað að beina refsivendi sínum frekar að heiðn-
um þjóðum og í þriðja lagi bendir hann Guði almáttugum á að
það verði enginn eftir til að lofa hann né þakka ef allir liggja
dauðir: „Nafn þitt enginn dýrkar dauður / dufti í, né þakkar
þér ...“.44
Kvæði Ólafs sver sig í ætt við heimsendakvæði en hugmynd-
in um að dómsdagur væri yfirvofandi sést víða í evrópskum
kveðskap þessa tíma. Hér er ekki um landlýsingu að ræða en fjall-
að er um land og þjóð, um náttúru Islands og náttúruhamfarir
túlkaðar sem refsing Guðs fyrir slæma hegðun landsmanna.
42 Ein Lijtil Psalma og Visna Book. Hólum 1757:F7r-Gv.
43 Nils Gilje: „En verden full av tegn - aspekter ved virkelighetsoppfatningen pa
1600-tallet.“ Petter Dass og Norden. Nesna 2002:103-122.
44 Ein Lijtil Psalma og Visna Book. Hólum 1757:F12r (46. erindi).