Skírnir - 01.09.2002, Qupperneq 82
304
GÍSLI GUNNARSSON
SKÍRNIR
eigu Hólastóls.16 Báðir foreldrarnir voru Skagfirðingar að ætt og
uppruna í nokkra ættliði, allt austan vatna, voru áarnir flestir „gott
bóndafólk, sem dó í heiðarlegri elli“, eins og Jón Steingrímsson
lýsti móðurfólki sínu.17
Jón Steingrímsson missti föður sinn á níunda aldursári. Nokk-
ur arfur kom eftir hann. Með hjálp góðra manna, einkum sjálfs
Lúðvíks Harboes og fylgdarmanns hans, Jóns Þorkelssonar,
komst Jón í Hólaskóla árið 1744, þrátt fyrir andstöðu ráðsmanns
skólans, Skúla Magnússonar, þá sýslumanns Skagfirðinga sem
vildi neita Jóni um þá ölmusu sem var forsenda þess að fátækir
unglingar kæmust í skólann. Helsta skýring á andstöðu Skúla
virðist vera sú að hann taldi að bændasynir ættu að verða bændur,
hver maður átti að halda sér í sinni stétt, auk þess að skólaganga
Jóns rændi móður hans fyrirvinnu.
Jón var í Hólaskóla sín sex ár og útskrifaðist árið 1750. Hugur
hans lá til frekara náms en þá var hann kvaddur til að vera djákn
klausturhaldarans á Reynistað. Frelsi hans til að neita þessari köll-
un var lítið eða ekkert, líkt og gerðist tæpum tíu árum síðar þegar
hann var kallaður til prestskaps en um það segir Jón: „En þar eg
hafði á ölmusskóla verið, þorði eg ei annað en hlýða þeirri kall-
an“.18
Klausturhaldari á Reynistað var þá Jón Vigfússon (1705-1752).
Hann var af helstu höfðingjaættum landsins og aðalerfingi föður,
móður og stjúpföður sem öll voru rík! Mikinn auð erfði Jón frá
móður sinni, Helgu, dóttur Jóns Vigfússonar sýslumanns og bisk-
ups, mikils auðmanns á sinni tíð. Mestur hefur þó arfurinn verið
eftir stjúpföðurinn, Jens Spendrup, sýslumann. Frájens hefur Jón
16 Við ættartal séra Jóns og fleiri einstaklinga sem tengdust honum og við jarða-
mat er stuðst við þessar heimildir: Sjálfsævisaga Jóns Steingrímssonar, Islenzk-
ar œviskrár, Bogi Benediktsson: Sýslumannaxfir. Með skýringum og viðaukum
eftir Jón Pétursson og Hannes Þorsteinsson (Reykjavík 1881-1932), Manntal á
Islandi árið 1703. Jarðabók Arna Magnússonar og Páls Vídalíns, 9. bindi
(Skagafjörður) (Kaupmannahöfn 1930), Björn Lárusson: The Old Icelandic
Land Registers (Lundi 1967), Bragi Guðmundsson: Efnamenn og eignirþeirra
um 1700 (Reykjavík 1985).
17 Sjálfsrevisaga, bls. 6.
18 Sjálfsœvisaga, bls. 123.