Skírnir - 01.09.2002, Síða 88
310
GÍSLI GUNNARSSON
SKÍRNIR
lausar þegar enginn fékkst lengur af þeim arðurinn vegna eldgoss-
ins. Hann nafngreinir hér Jón Jónsson að Móeiðarhvoli, sýslu-
mann Rangárþings. Milli þeirra hafði verið vinskapur góður, sem
„... hélzt svo lengi við, meðan mér leið allt vel. En að því kom, þá
eg varð fátækur og nauðlíðandi, vildi hann hvorki heyra mig né
sjá. Svo blindar auðlegð og velmagt oft hina beztu menn“.35
Þegar málaferlin stóðu yfir gegn Jóni vegna hegðunar hans í
móðuharðindunum, sem fjallað verður um síðar, vottuðu mörg
sóknarbörn hans honum í vil, þ.á m. hreppstjórar tveir, og sagði
svo meðal annars í vottorði þeirra um klerk: „Gesti og umferða-
fólki hefur hann framar öllum hýst, og engan látið synjandi frá sér
fara“.36 Hannes Finnsson biskup brást þannig við ummælum
þessum að sögn Jóns: „Betur að eg hafi aldrei séð þessi orð. Við
kunnum að finna okkar skyldu að fá þér nokkuð að lifa af, en ei
handa öðrum“.37
Sannarlega voru menn forlagatrúar, ríkir jafnt sem fátækir lifðu
í hugarheimi lúthersks rétttrúnaðar, sumir voru guðs útvaldir en
aðrir dæmdir til eilífrar glötunar. Víða kemur þetta berlega fram
hjá Jóni Steingrímssyni. Forlagahyggjunni hér á landi fylgdi ber-
dreymi, fólk dreymdi fyrir hvað verða vildi. Og Jón dreymdi
margt sem hann rekur vandlega í ævisögu sinni. Draumar Jóns
verða ekki raktir hér.
Forlagatrúnni fylgdi einlæg trú á forsjá guðs sem var ekki að-
eins almáttugur heldur fylgdist vandlega með öllu mannlegu at-
hæfi og umbunaði mönnum eða straffaði eftir ástæðum. Móðu-
harðindin stöfuðu auðvitað af syndum mannanna: „1783 tók sá al-
vísi guð, bæði í vöku og svefni, að benda mér og öðrum, að vér
skyldum taka vara á oss og búa oss við yfirhangandi og ókomnu
straffi. Eldroði sást í lofti og teikn, ormar hangandi og pestarflug-
ur á jörðu, skrímsli í vötnum, item hljóð og veinan í hennar iðrum
... Drambsemin sté upp, sem ávalt er fallinu næst“.38 „Svo byrjast
drottins upphaf og tyftunar og nýrra hörmunga, er komu yfir mig
35 Sama heimild, bls. 155.
36 Sama heimild, bls. 198.
37 Sama heimild, bls. 200.
38 Sama heimild, bls. 181.