Skírnir - 01.09.2002, Page 103
SKÍRNIR
NÝ FÉLAGSRIT OG SKÁLD ÞEIRRA
325
Grímur tók sæti í forstöðunefndinni 1846 og birti þrjú kvæði í
árganginum. Hann hvarf úr nefndinni þetta sumar og árið eftir
kom Brynjólfur Snorrason í hans stað, en Vilhjálmur Finsen í stað
Þorsteins. Á því ári (1847) kvaddi nýtt skáld, Gísli Brynjúlfsson,
sér hljóðs með tveimur kvæðum. Gísli var fæddur 1827 og kom til
Hafnar sumarið 1845 og stóð því á tvítugu þegar fyrstu kvæði
hans birtust.
Á Þorláksmessu 1847 var boðað til fundar í félaginu á annan í
jólum með hefðbundnum hætti. Þar átti að ræða um sölu „félags-
ritanna“ á íslandi, „útbúnað á áttunda ári“ og kosningu fimm
manna í forstöðunefndina. Jón Sigurðsson, Oddgeir Stephensen
og Vilhjálmur Finsen skrifuðu undir fundarboðið. Átta félags-
menn fengu það í hendur: Sigurður Hansen, Jón Thoroddsen,
Gísli Brynjúlfsson, Eiríkur Jónsson, Jónas Thorstensen, Bogi
Thorarensen, Stefán Thorarensen og Finnur Thorsteinsson. Allir
voru þeir yngri menn en Jón Sigurðsson.
Árið 1848 kom Gísli Brynjúlfsson í forstöðunefndina í stað
Brynjólfs Snorrasonar. Á því ári bættist Benedikt Gröndal í röð
skáldanna og lagði ritinu til þrjú kvæði. Gröndal var fæddur árið
1826 og kom til Hafnar tvítugur að aldri haustið 1846. Hann hafði
birt frumsamin kvæði í Fjölni árið áður.
Um þetta leyti var mikil gróska í félaginu. Með fundarboði 30.
janúar 1849 boðaði Jón Sigurðsson til fundar hjá Vilhjálmi Finsen
„til að ráðgast um hverja mynd skuli taka til „Félagsritanna“ í vor
er kemur, samkvæmt því sem ákveðið var á seinasta fundi." Nítján
voru boðaðir á fundinn og sextán skráðu nöfn sín sem væntanleg-
ir fundargestir, en þetta var einhver fjölsóttasti fundur í félaginu á
þessum árum. Þessi árgangur og tveir hinir næstu voru án kvæða.
Brynjólfur Snorrason kom aftur í nefndina í stað Jóns Guð-
mundssonar. Brynjólfs naut skamma hríð við því að hann lést um
sumarið.
Gísli Brynjúlfsson var eina skáld árgangsins 1852. Hann var þá
í forstöðunefndinni. Á þessu ári varð sú breyting á henni að Odd-
geir Stephensen sagði sig úr félaginu með svohljóðandi bréfi:
„Vegna stöðu minnar til stjórnarinnar álít eg réttast, að taka ekki
þátt í að gefa út „Ný félagsrit", og segi mig því hér með úr félag-