Skírnir - 01.09.2002, Síða 109
SKÍRNIR
NÝ FÉLAGSRIT OG SKÁLD ÞEIRRA
331
Steingrímur eirði ekki sumarið á enda í forstöðunefndinni því að
11. ágúst 1861 skrifaði hann eftirfarandi bréf til útgefenda Nýrra
félagsrita: „Um leið og eg læt hina háttvirtu útgefendur Nýrra fé-
lagsrita vita, að eg framvegis ekki mun taka þátt í útgáfu ritanna,
óska eg að annar maður sé kosinn í minn stað í forstöðunefndina."
Ekki er vitað hvernig þessi mál skipuðust, en rúmu ári síðar,
27. ágúst 1862, skrifaði Steingrímur Jóni Sigurðssyni einu sinni
enn af sama tilefni og segir þar: „Þar sem þú í hinu vinsamlega
bréfi þínu spyr, hvort eg hafi nokkuð á móti því, að nafn mitt
standi framan á ritunum í þetta sinn, þá get eg ekki haft neitt á
móti því, úr því eg á annað borð ekki neitaði kosningu í fyrstu.“
Frekari heimildir eru ekki til um hvernig Jón Sigurðsson brást
við bréfum Steingríms þegar þessum sleppir. Hitt liggur ljóst fyr-
ir að Steingrímur var í forstöðunefndinni árin sem þessi bréf eru
skrifuð. Hins vegar brá svo við árið 1863 að nafn hans var horfið
þrátt fyrir ofangreint bréf.
I bréfinu sem vitnað er til hér á undan skýrir Steingrímur fyr-
ir Jóni hvers vegna hann hafi sagt sig „úr ritunum" og farast hon-
um orð á þessa leið:
Fyrst eg nú verð að minnast á þetta mál, þá finn eg nokkurs konar nauð-
syn til að fara um það fáeinum orðum, hvers vegna eg hef sagt mig úr rit-
unum. Það sem mér gengur til þess, er fyrst og fremst, að mín meining er
sú að ekki sé ástæða til að halda Félagsritunum lengur áfram með þeim
kröftum sem þau nú hafa, þau hafa að sönnu mikla krafta, þar sem þú ert,
því ef þú ekki værir, þá væru engin Félagsrit, en það er líka allt og sumt,
og að öðru leyti finnst mér ritin vanta félagið, sem á að gefa þeim nafn sitt.
... f annan stað ber mér ekki að dyljast þess, að þó eg sé samdóma öllum
þeim kröfum sem hingað til hefur verið framfylgt í ritunum íslandi til
handa, þá er eg samt ekki með öllu samdóma sumu því sem í þeim stend-
ur, og get eftir minni sannfæringu ekki staðið ábyrgð á því, því síður sem
eg hef lítið skynbragð á Politík.
I bréfinu víkur Steingrímur að fundum sem haldnir voru vegna
veitingar sýslumannsembætta og segist hafa verið misskilinn.
Menn uppskeri óvinsældir fyrir að kenna dönskum fornkunningja
íslensku og taldi ástæðulaust að afsaka það. Lokaorð bréfsins voru
þessi: „Þó að nú þessar skoðanir kunni í einhverju að vera ósam-