Skírnir - 01.09.2002, Page 154
376
SIGURÐUR GYLFI MAGNÚSSON
SKÍRNIR
einfaldlega vegna áhuga míns og kunnugleika á persónulegum
heimildum. Eg hef verið þeirrar skoðunar að persónulegar heim-
ildir bjóði sagnfræðingum upp á möguleika til að vinna með
áhugaverð söguleg efni á annan hátt en tíðkast hefur. Ég hef á und-
anförnum árum gert ýmsar tilraunir með notkun þeirra við sagn-
fræðirannsóknir og hef sífellt styrkst í þeirri trú að þær geti haft
veruleg áhrif á umfjöllun sagnfræðinga um liðna tíð. I því sam-
bandi hef ég nýtt hugmyndafræði einsögunnar til að koma bönd-
um á þessar flóknu heimildir og til að vísa veginn við greiningu
þeirra.12 En þó að ég hefði eingöngu einbeitt mér að stöðu eins
einstaklings í sögunni þá breytti það engu um hversu góð eða
slæm þýðing nýyrðisins einsaga væri á hugtakinu microstoria.
Þegar Loftur Guttormsson reynir að skipa mér á bekk innan
einsöguhefðarinnar kemur þessi misskilningur hans á einsögu-
þýðingunni berlega í ljós. Loftur gefur sér að ég hafi fyrst og
fremst sótt styrk minn til ítalska einsöguskólans og telur að þar á
bæ hafi menn einblínt á einstaklingana og stöðu þeirra í samfélag-
inu. Vísar hann þar til upphafsmanns einsögunnar, ítalska sagn-
fræðingsins Carlo Ginzburg, og rannsókna hans, sem meðal ann-
ars fjölluðu um hugarheim malarans Menocchio sem uppi var á
16. öld.13 Loftur telur á hinn bóginn að í „... hinum löndunum
sem nefnd voru [Þýskaland, Frakkland og Norðurlöndin] beind-
ist athyglin fremur að ákveðnu samfélagi - þorpi, góssi, ætt - þar
sem fjöldi einstaklinga er í sviðsljósinu."14 Hér sjáum við grilla í
síðari hluta þýðingarskýringar minnar sem Loftur kaus að líta
12 Benda má á að ég hef unnið með fjölbreytilegar tegundir persónulegra heimilda
eins og sjálfsævisögur, endurminningarit, viðtalsbækur og viðtöl, fræðilega
spurningalista, dagbækur, bréf og bréfasöfn og ýmsar tegundir handrita sem
hægt er að flokka með persónulegum heimildum. Hér liggur beinast við að vísa
í ritröð þá sem ég og Kári Bjarnason íslenskufræðingur höfum ritstýrt (sagn-
fræðingarnir Davíð Ólafsson og Már Jónsson hafa nýverið bæst í hóp ritstjóra)
sem ber heitið Sýnisbók tslenskrar alþýðumenningar, en sex bækur eru nú þeg-
ar komnar út.
13 Carlo Ginzburg, The Cheese and the Worms: The Cosmos of a Sixteenth-Cent-
ury Miller. Þýð. John og Anne Tedeschi (Lundúnum 1982). Þess má geta að
Ginzburg hefur verið afar ötull við skriftirnar á undanförnum áratugum og er
með ólíkindum hve löng ritaskrá hans er og fjölbreytt.
14 Loftur Guttormsson, „Smátt og stórt í sagnfræði", bls. 459.