Skírnir - 01.09.2002, Síða 184
406
JÓN KARL HELGASON
SKÍRNIR
um, því vissulega hrinti hann í framkvæmd ýmsum þjóðþrifaverk-
efnum á vegum hins opinbera sem miðuðu að því að gera menning-
una að almenningseign. Islandssaga Jónasar sjálfs frá miðjum öðr-
um áratug 20. aldar ber t.d. ekki vott um að hann hafi litið á Islend-
ingasögur sem safn dýrgripa sem ekki mætti hreyfa við. Á fjórða og
fimmta áratugnum varð Jónasi aftur á móti tíðrætt um skríl og
götulýð, sem ekki ætti tilkall til íslenskrar menningar, og átti þá ým-
ist eða bæði við kjósendur kommúnista og þá sem aðhylltust er-
lendar framúrstefnur í listum. En málið snerist líklega fyrst og
fremst um það hver fengi að matreiða menninguna ofan í almúgann.
Viðhorf Jónasar frá Hriflu til menningarinnar eiga væntanlega
rætur sínar í starfi íslensku ungmennafélaganna í upphafi 20. ald-
ar, kenningum norrænna lýðskólamanna og þeim hugmyndum
um menntun og stjórnmál sem Jónas kynnist á námsárum sínum í
Bretlandi. En menningarhugtak hans mótaðist einnig í deiglu að-
stæðnanna. Þegar Halldór Laxness og Ragnar í Smára fóru að gefa
út fornsögur með nútímastafsetningu á fimmta áratugnum leit
Jónas á það sem persónulega ögrun við sig enda hafði Bókaútgáfa
Menningarsjóðs, sem hann veitti forstöðu sem formaður Mennta-
málaráðs, uppi svipuð áform. Þeir Halldór og Jónas höfðu þá þeg-
ar eldað grátt silfur saman á ýmsum vígstöðvum og veitti ýmsum
betur. Halldór var umdeild persóna í þjóðlífinu á þessu tímabili og
reyndist Jónasi auðvelt að vekja tortryggni meðal meirihluta þing-
manna í hans garð þegar kom að afgreiðslu laga um einkarétt rík-
isins á útgáfu fornrita. Ekki er víst að fornritaútgáfur Halldórs
hefðu vakið slík viðbrögð ef einhver annar hefði verið ritstjóri.6
Um leið og þetta mál ber vitni um þær „stofnanalegu og póli-
tísku" breytingar „sem urðu á notkun menningarhugtaksins í ís-
lensku mennta- og bókmenntalífi á fyrri hluta 20. aldar“, svo vitn-
að sé til orða Gauta,7 rennir það stoðum undir þá ábendingu Berg-
6 Sjá nánar: Jón Karl Helgason, The Rewriting of Njdls Saga. Translation, Politics
and Icelandic Sagas, Clevedon, Buffalo, Toronto, Sydney: Multilingual Matters
Ltd. (1999), s. 131-134. Um samband Jónasar frá Hriflu og Halldórs Laxness, sjá
Guðjón Friðriksson, Ljónið öskrar. Saga Jónasar Jónssonar frá Hriflu, 3. bindi,
Reykjavík: Iðunn (1993), s. 184-195.
7 Gauti Sigþórsson, „Njáluslóðir", s. 534.