Skírnir - 01.09.2002, Page 197
SKÍRNIR
HVER Á ÍSLENSKA MENNINGU?
419
Og ef einhverjum saklausum sveitamanni hugkvæmdist að yfirfæra rök
Nordals til þeirra atburða, sem nú eru að gerast, þá gæti farið svo, að
honum þætti það ófullnægjandi skýring, að ekki sé hægt að mynda þing-
ræðislega stjórn, af því að á þingi sitji nokkrir vondir kommúnistar, en sú
skýring mætti eiga heldur greiðari braut að brjósti hans, að vandræðin
með stjórnarmyndun og önnur ákveðin úrræði um stjórnmálastörf eigi
rætur sínar í sérstöku og til þessa óvenjulegu styrkleikahlutfalli milli
tveggja sterkra andstöðustétta, sem berjast um völdin í þjóðfélaginu (s.
137).
Gunnar dregur að vísu ekki dul á að Sigurður sé borgaralegur en
ekki kommúnískur rithöfundur, ólíkt því sem hatursmenn hans
haldi fram. íslenzk menning sé glæsilegt haustblóm borgaralegrar
menningar sem gefi vísbendingu um nýja tíma. Ritdómnum lýkur
á einkennilegri grafskrift - hugsanlegum dómi síðari tíma manna
um Islenzka menningu - þar sem Sigurði er lýst í þátíð sem glæsi-
legasta fulltrúa sinnar samtíðar, „þegar fyrri tíma menning er að
leysast upp og grotna niður í hamsleysi hagsmuna- og stéttamót-
setninganna á efstu árum hins kapítalíska skipulags" (s. 142).
Lokaorð ritdómsins eru svohljóðandi: „Nordal er sættir tveggja
menningartímabila, opnar augu hins deyjanda fyrir eðli sinnar eig-
in sögu og réttir hinu uppvaxandi arfinn í ljósi þess menningarlega
skilnings, er hin deyjandi kynslóð gat glæsilegastan og djúp-
hyglastan veitt" (s. 143).
Þessa róttæku greiningu Gunnars Benediktssonar er eðlilegt að
skoða sem beint eða óbeint svar við frjálslyndri pólitískri stefnu-
yfirlýsingu Sigurðar Nordals í forspjalli Islenzkrar menningar.
Ritdómurinn í heild ber vott um að pólitískum átökum um það
hver ætti yfirráðaréttinn yfir íslenskri menningu var ekki lokið.
Þau átök héldu auðvitað áfram á tímum kalda stríðsins og gott
betur, m.a. með þátttöku Almenna bókafélagsins, en eitt af síðustu
útgáfuverkefnum þess forlags var heildarútgáfa á verkum Sigurð-
ar Nordals. íslenzk menning kom út sem hluti af því verkefni árið
1993 en nokkru áður hafði verkið verið endurútgefið í sinni upp-
runalegu mynd hjá Máli og menningu.