Skírnir - 01.09.2002, Page 201
GREINAR UM BÆKUR
MÁR JÓNSSON
Kynnisferð um krókaleiðir
handrita og skjala
Stefán Karlsson
Stafkrókar
Stofnun Árna Magnússonar, Reykjavík 2000
Fyrir hartnær aldarfjórðungi var ég við sagnfræðinám á fjórðu hæð í
Árnagarði, nýlegri byggingu Háskóla íslands í Reykjavík, og heyrði því
fleygt að Stefán Karlsson, rómaður fræðimaður á Árnastofnun tveimur
hæðum neðar, skrifaði eiginlega aldrei neitt vegna þess að hann væri alltaf
að hjálpa útlendingum sem fyrir einhverja duttlunga örlaganna höfðu
fengið áhuga á íslenskum textum eða handritum. Engu var logið um
hjálpsemina, svo sem sjá má á áköfum þakkarorðum til Stefáns í formál-
um ótal fræðibóka frá síðustu áratugum. Það sem haft var fyrir satt um
skriftir hans var aftur á móti úr lausu lofti gripið. Afköst Stefáns eru
nefnilega mikil og hafa verið í yfir fjörutíu ár, ekki síst þegar litið er til þess
að rannsóknir sem hann stundar eru með afbrigðum torfærar og tímafrek-
ar. Vandinn er hins vegar sá, og líkleg undirrót umtalsins, að greinar Stef-
áns birtast oftar en ekki í tímaritum eða afmælisritum úr alfaraleið nútíma
bókmenningar. Ritin eru jafnvel ekki til nema á albestu bókasöfnum og þá
varla til útláns. En úr þessu hefur nú verið bætt með bókinni Stafkrókar
sem áreiðanlega ratar í öll bókasöfn landsins og í hillur á ótal heimilum.
Loksins er á einum stað hægt að fá gott úrval greina eftir einn mikilvirkasta
og öflugasta fræðimann sem íslensk fræði hafa átt. Mér er líka tjáð að bók-
in hafi runnið út og sé að heita má uppseld. Fer vel á því og hún á örugg-
lega eftir að seljast ennþá betur næstu ár og áratugi, enda er hér komið á
prent sígilt rit sem verður lesið „meðan bárur á vogi skríða“ eins og Árni
Magnússon komst að orði í kvæði sem hann orti til heiðurs skólameistara
nokkrum í Björgvin haustið 1689.1 Frágangur bókarinnar er vandaður, svo
sem við mátti búast af hálfu Árnastofnunar. Vel er til fundið að láta grein-
arnar standa óhaggaðar eins og þær birtust en gefa Stefáni færi á að auka
við efni og athugagreinum eftir því sem tilefni er til vegna síðari umræðu
um sömu atriði eða nýrra uppgötvana hans sjálfs.
1 Ame Magnussons levned og skrifter II. Útgefandi Finnur Jónsson. Kaupmanna-
höfn 1930, bls. 310; Már Jónsson, Árni Magnússon. Ævisaga. Reykjavík 1998,
bls. 87.
Skírnir, 176. ár (haust 2002)