Skírnir - 01.09.2002, Síða 202
424
MÁR JÓNSSON
SKÍRNIR
I
Eins og segir í ávarpsorðum ritstjóra bókarinnar, Guðvarðs Más Gunn-
laugssonar, hefur Stefán Karlsson „með rannsóknum sínum lagt fram
mikilvægan skerf til þekkingar á íslenskum handritum og íslenskri
tungu.“ I því sem hér fer á eftir verður reynt að leggja nokkurt mat á þann
skerf, í hverju hann felst og hvernig hann er orðinn til. Við val á greinum
í bókina var að sögn Guðvarðs höfð að leiðarljósi sú „fjölbreytni í rann-
sóknum sem Stefán er þekktur fyrir." Ég mun þó einungis ræða það sem
óneitanlega er kjarninn í starfi Stefáns, sem eru rannsóknir á skrift og staf-
setningu eða með öðrum orðum aðferð hans við greiningu á stafagerð og
stafsetningu eins og hún birtist í athugunum á einstökum handritum og
við aldursgreiningu þeirra. I einu orði má kalla þau vísindi stafkrókafrœði,
sem er viðkunnanlegra orð en fornskriftarfrætíi sem þýðing fyrir hið al-
þjóðlega hugtak paleógrafíu. Að mínu viti hefði átt að setja í bókina fleiri
greinar af því tagi og sleppa frekar greinum sem í bókinni eru hafðar und-
ir fyrirsögnunum „Édduorð“ og „Af biskupum.“ Eiginlegt framlag Stef-
áns til íslenskra fræða og íslenskrar menningarsögu hefði komið betur í
ljós. Mest sakna ég fjögurra greina sem hefðu notið sín sérlega vel í þess-
ari bók:
- „Um handrit að Guðmundar sögu bróður Arngríms." Opuscula 1
(1960), bls. 179-89.
- „Gömul hljóðdvöl í ungum rímum.“ Islenzk tunga 5 (1964), bls.
7-29.
- „Halldór Guðmundsson, norðlenzkur maður.“ Opuscula 4 (1970),
bls. 83-107.
- „Stafsetning séra Odds á Rcynivöllum." Afmæliskveðja til Halldórs
Halldórssonar. Reykjavík 1981, bls. 248-84.
Allmargar greinar aðrar hefur Stefán birt sem vont er að þurfa enn sem
fyrr að eltast við á sjaldförnum slóðum og verður staðsetning þeirra til-
greind innan sviga þegar þeirra er getið fyrst hér á eftir, en að sleppa þess-
um fjórum greinum er of langt gengið. Þar gerði ritnefnd mistök. Önnur
mistök eru að taka ekki upp ritaskrá Stefáns sem var gerð á vegum Det
arnamagnæanske institut í Kaupmannahöfn (eftirleiðis Árnasafn) og kom
út í fjölriti ásamt handritanotaskrá hans haustið 1998 undir heitinu Steph-
ania. Bibliografi over Stefán Karlssons filologiske arbejder 1960-1998 med
et hándskriftregister. Létt verk hefði verið að uppfæra ritaskrána (sem
reyndar nær aðeins til 1997) og ekki hefðu bæst nema tíu blaðsíður við
bókina í mesta lagi en notagildi hennar aukist til mikilla muna. Þannig var
staðið að verki í greinasafni Ólafs Halldórssonar, Grettisfærslu (Reykja-
vík 1990) og hefði mátt hafa það sem fyrirmynd.
Stórskaði er að fyrsta grein Stefáns, um handrit Guðmundar sögu,
skuli ekki hafa fengið að fljóta með. Hún sýnir stórefnilegan fræðimann,
rétt rúmlega þrítugan, og boðar það sem koma skyldi. Efnistök líkjast