Skírnir - 01.09.2002, Side 218
440
ÚLFHILDUR DAGSDÓTTIR
SKÍRNIR
Hjúin eru reyndar kunnugleg úr annarri skáldsögu, Augu þín sáu mig,
frá árinu 1994, en Með titrandi tár er sjálfstætt framhald þeirrar bókar.2
Þar fylgdist konan hins vegar með frá upphafi og tók virkan þátt í fram-
vindu sögunnar.3 Nú er eins og hún sé orðin fjarlægari; reyndar eru þau
bæði fyrirferðarminni í Með titrandi tár, þeirra þáttur, eða þáttur sam-
ræðna þeirra um frásögnina og atburði hennar, er mun minni en í fyrri
sögunni. En sögumaðurinn er sínálægur, eins og áður sagði, í gæsalöpp-
unum sem ramma textann inn. Líkt og um hefðbundna sjálfsævisögu væri
að ræða segir sögumaður frá því hvernig hann varð til. í Augu þín sáu mig
varð ljóst að hann er ekki aðeins búinn til úr leir - eins og fram kemur í
tilvitnuninni í upphafi þessarar greinar - heldur er hann einnig samsettur
úr sögum, skáldsögum, kvikmyndum og draumum.4 Þessi uppbygging
persónunnar heldur áfram í Með titrandi tár, en nú er ekki aðeins verið
að búa til mann, heldur Islending, og því er sögusviðið allt mun þjóðlegra
- eins og titillinn reyndar gefur til kynna, en hér vefur Sjón sinn sérstaka
skáldsöguvef úr íslendingasögum, Jtjóðsögum, og svo auðvitað úr sjálfri
sögunni - mannkynssögunni og íslandssögunni. í Með titrandi tár er
dregin upp ljóslifandi mynd af eftirstríðsárunum og sagan ber vitni ríku-
legri frásagnargáfu höfundar. En Sjón er ekki á nokkurn hátt að skrifa það
sem kalla mætti hefðbundna sögulega skáldsögu. Líkt og önnur skáld-
skaparform er sögulega skáldsagan einungis hráefni sem Sjón vinnur úr á
sinn einstaka hátt, leikur sér með, togar og teygir, mótar og meitlar og
færir að lokum í allt annað form - sem þó ber ávallt skýr merki uppruna
síns. Það ísland sem birtist okkur í skáldsögu Sjóns er þannig ekki endi-
lega það ísland sem við þekkjum nú á dögum; kannski er réttara að segja
að ísland Sjóns sé nokkuð frábrugðið þeirri ímynd sem við gerum okkur
af íslandi fortíðar. Samt kemur það ávallt kunnuglega fyrir sjónir og þess-
ir kunnuglegu drættir myndarinnar ummyndast á stundum í ókennilega
sýn og ísland verður að stað sem er utan allra staða, þó að í raun og veru
sé hægt að binda hann við ákveðinn stað, en á þennan hátt lýsir Michel
Foucault hugmynd sinni um heterótópíuna.5
2 Sjón hlaut menningarverðlaun DV fyrir báðar sögurnar.
3 Þegar hvorki gengur né rekur er það hún sem beinlínis tekur upp söguþráðinn
og rekur söguna áfram. Ég fjalla frekar um þetta í grein minni um Auguþín sáu
mig í Heimi skáldsögunnar (Ulfhildur Dagsdóttir 200 lc).
4 Sjá frekar um þetta í grein minni „Auguþín sáu mig eftir Sjón“ (Úlfhildur Dags-
dóttir 200 lc).
5 Sjá Foucault 2002. Heterótópían verður rædd frekar í síðari hluta greinarinnar.
Ókennileiki er hugtak Freuds (das Unheimliche) sem hann notar til að lýsa
óhugnaði sem felst í því að eitthvað kunnuglegt - en gleymt - úr fortíðinni snýr
aftur í nútíðinni og hefur þá tekið á sig ókennilegt form. Foucault vísar ekki
sjálfur í Freud, en mér virðist hins vegar ljóst að heterótópía hans getur auðveld-
lega tekið á sig ókennilega mynd, eins og hún gerir á stundum í skáldsögu Sjóns.