Skírnir - 01.09.2002, Page 220
442
ÚLFHILDUR DAGSDÓTTIR
SKÍRNIR
an í stuttum myndskeiðum sem gefa jafnframt sterka og skýra heildar-
mynd, enda verður ekki annað sagt en að höfundurinn haldi vel utan um
sögu sína. Sjón er einn af fáum íslenskum höfundum sem hefur gert til-
raun til að skrifa metnaðarfulla póstmóderníska ‘metaskáldsögu’, en slík-
ar skáldsögur hafa verið áberandi á síðustu þremur áratugum í alþjóðleg-
um bókmenntaheimi.7 I þessum tveimur skáldsögum sínum tekur Sjón
metaskáldsöguna og vangaveltur hennar um tengsl höfundar og verks,
verksins og veruleikans, og speglar hana í sköpunarsögum af ýmsu tagi,
sérstaklega þó goðsögunni um góleminn. Þetta gerir hann með því að gera
góleminn að sögumanni, og afhjúpa síðan í lok Með titrandi tár að sögu-
maðurinn er enginn annar en hann sjálfur - en gólembarnið lifnar við í
lok sögunnar á fæðingardegi höfundarins. Með þessu er ítrekuð sú
sjálfsævisögulega vísun sem kemur fram í notkun gæsalappanna. Þrátt
fyrir að það sé óneitanlega freistandi að gera sér í hugarlund að Sjón sé að
blanda sjálfum sér saman við eigin texta og skapa - eða endurskapa - sjálf-
an sig sem eins konar leir-burð, þá er ljóst að hér er á ferðinni leikur með
höfundarímyndina eða það fyrirbæri sem almennt er kallað ‘höfundur’.
Hugmyndin um höfundinn er tekin og gerð að leik þar sem höfundurinn
skapar úr sjálfum sér eins konar pappírsdýr sem hann fellir inn í síður
bókarinnar og fléttar inn í söguþráðinn.8
Þessi tvö meginþemu skáldsögunnar, sjálfsvitund hennar um eigin
sköpun og sköpun sögumanns/höfundar, kalla því á að skáldsagan sé
skoðuð með tilliti til kenninga um metaskáldskap og sköpunarsögur.
Sköpunarsöguþátturinn er síðan tvíþættur og tengist einnig eins konar
(endur)sköpun Islands sjálfs, sögu, menningar og uppruna þjóðarinnar,
en Með titrandi tár felur í sér heterótópískan ‘lestur’ á Islandi sem annar-
legum stað, þar sem heterótópían verður að goðsögulegri og raunveru-
legri leið höfundarins til að vefengja það rými sem við lifum í.9
7 Ég legg áherslu á að auðkenna metaskáldsögu Sjóns sem póstmóderníska til að
aðgreina hana frá metaskáldsögum sem tilheyra fremur hugmyndaheimi
módernismans. Slíkar skáldsögur voru skrifaðar hér á sjöunda og áttunda ára-
tugnum af höfundum eins og Halldóri Laxness, Jakobínu Sigurðardóttur, Guð-
bergi Bergssyni, Thor Vilhjálmssyni og Steinari Sigurjónssyni, svo nokkrir séu
nefndir. Atökin við hina póstmódernísku metaskáldsögu hafa hins vegar ekki
verið eins mikil, þrátt fyrir að ýmsir höfundar hafi komið að henni á einn eða
annan hátt. Sem dæmi má nefna Rögnu Sigurðardóttur, Vigdísi Grímsdóttur,
Gyrði Elíasson, Sigurð Guðmundsson, Jón Karl Helgason, Einar Má Guð-
mundsson og nú síðast Hallgrím Helgason.
8 Sjá nánar um þetta í yfirlitsgrein minni um höfundarverk Sjóns, ,,„ég vil að þið
sjáið mig fyrir ykkur“: myrkar fígúrur, rauðir þræðir og Sjón“ (Ulfhildur Dags-
dóttir 2001 a).
9 Sjá Foucault 2002.