Skírnir - 01.09.2002, Síða 223
SKÍRNIR
SKYLDI MÓTA FYRIR LANDI?
445
Rithöfundurinn Donald Barthelme kallar þetta dreck og lýsir því svo:
„Þetta er efni sem virðist í fyrstu ekki koma málinu sérlega við (eða bara
alls ekki við) en þegar nánar er að gáð þá getur þetta gefið eins konar
„skýringu“ á því sem er að gcrast".11 Waugh nefnir Objets trouvés sem
eitt af fjölmörgum dæmum um metafiction sem kalla mætti ‘sjálfsögu’
eða einfaldlega metasögu, eins og hér hefur verið gert.12 Orðið meta-
skáldskapur vísar til skáldverka sem afhjúpa eigið sköpunarferli og jafn-
framt (að meira eða minna leyti) stöðu sína sem skáldskapur. Þessi til-
hneiging, sem hefur verið kennd við póstmódernisma, varð mjög áber-
andi í skáldsögum á áttunda og níunda áratugnum og olli gagnrýnendum
og fræðifólki miklum áhyggjum sem taldi hana merki um kreppu skáld-
sögunnar.13 Metaskáldskapur var að margra mati dæmi um flótta skáld-
11 Tilvitnun í Donald Barthelme, Snow White, 1968, s. 106, tekin úr Waugh 1984,
s. 143.
12 Sjálfsaga er orð sem Ástráður Eysteinsson (1999a) vill nota yfir ‘metafiction’. f
sumum tilfellum á það orð ágætlega við en er ákveðnum takmörkunum háð,
eins og Ástráður viðurkennir reyndar sjálfur í neðanmálsgrein en þar segir
hann að „íslenska hugtakið dragi ekki eins skýrt fram tilbúninginn eða hið „fik-
tífa“ í frásögninni“ (214). f umfjöllun minni um tengsl skáldsögu og sjálfsver-
unnar í „A.ugu þín sáu mig eftir Sjón“ ræði ég t.d. hvernig metaskáldskapurinn
blandast umræðu um hlutverk skáldsögunnar í mótun hugmynda okkar um
sjálfsveruna. En sjálfsaga vísar að mínu mati fyrst og fremst til tegundar, eða
bókmenntagreinar, þ.e. skáldsögu eða smásögu og því er erfitt að heimfæra
hugtakið upp á önnur form sem vinna með sjálfsmeðvitund eða metaskáldskap
í myndmáli en ekki á sviði frásagnarinnar, svo sem sjónrænt efni, myndasögur
og kvikmyndir. Auk þess fellur orðið sjálfsaga illa að öðrum hugtökum eins og
‘metatext’ eða ‘metatextuality’ og er því ekki nægilega lýsandi fyrir fyrirbærið
sjálft og það ferli sem felst í því, en samkvæmt því sem Linda Hutcheon segir
(1984) er sjálft ferlið, skrif sögunnar og hvernig lesandi upplifir þau skrif, ein-
mitt mjög mikilvægt í metaskáldskap. Sjá einnig Kristínu Viðarsdóttur 1997.
13 Það fræðifólk sem fjallar um metaskáldskap gerir sér fyllilega grein fyrir því að
metaskáldsagan er í reynd eldri en póstmódernisminn og var notuð heilmikið
af módernistum (sjá 7. neðanmálsgrein). Hins vegar benda þau á að nálgunin á
metaskáldsöguna tók heilmiklum breytingum og hlutur metatextans varð æ
meira ríkjandi. Lengra var gengið í því að draga sköpunarferlið fram á sjónar-
sviðið og samþætta það sjálfri skáldsögunni, framvindu hennar og hugmynda-
heimi, þannig að á stundum verður sjálft sköpunarferlið mikilvægur þáttur í
frásögninni og atburðum hennar (en þetta þótti einmitt til marks um ‘kreppu’).
Dæmi um þetta í Augu þín sáu mig er þegar hlustöndin bókstaflega tekur upp
þráðinn til að sagan geti haldið áfram eftir að dómsdagslúðrablástur Gabríels
hafði fryst tímann. Líkt og það fræðifólk sem fjallar um metaskáldsöguna sem
póstmódernískt fyrirbæri geri ég mér fyllilega grein fyrir því að oft og tíðum er
ekki auðvelt að halda hinni póstmódernísku skáldsögu fullkomlega aðskilinni
frá hinni módernísku, en ég fylgi þeirra fordæmi í því að gera þrátt fyrir það
ákveðinn greinarmun á þessu tvennu.