Skírnir - 01.09.2002, Side 227
SKÍRNIR
SKYLDI MÓTA FYRIR LANDI ?
449
Að þessu leyti hefur Frankenstein alltaf vakið upp spurningar um
tengsl skapnaðar og skapara, innan og utan skáldsagna.21 Þessar vanga-
veltur teygja sig út fyrir skáldsöguna sjálfa og höfund hennar, því
Frankenstein sjálfur og skrýmsli hans hafa tekið á sig nokkuð sjálfstætt
líf. Áhrif skáldsögunnar eru slík að persónur hennar eru orðnar að nú-
tímagoðsögnum, sem er vísað til á ýmsan hátt - nú síðast hefur nafn
Frankensteins borið mjög á góma þeirra sem ræða líftækni, leikra og
lærðra. í þessari orðræðu er höfundur skáldsögunnar eiginlega horfinn,
og eftir stendur Frankenstein sjálfur sem eigin höfundur og eigin skapn-
aður. Þetta flökt með höfunda og skapara er sérlega áhugavert með tilliti
til þess að það er einmitt frá rómantíkinni sem við höfum hugmyndir
okkar um höfundinn sem alráðan, eins konar guð yfir verki sínu. Með
póstmódernismanum var hins vegar lýst yfir dauða höfundarins og hafa
sjálfsögurnar þótt sérlega skæðar í því að jarða höfunda; afhjúpun skáld-
skaparferilsins og áhersla á tengsl við aðra texta hafa gert miðstjórn höf-
undarins að engu, og skilið hann eftir í aukahlutverki, sem safnara eða í
mesta lagi skrásetjara. Linda Hutcheon segir að metaskáldsagan geri vald
höfundarins dularfullt með því að afhjúpa hvað það er miklum tilviljun-
um háð. „Höfundurinn" verður því að lausri stöðu eða hlutverki sem les-
andinn fer í þegar hann eða hún les textann. Þannig er hinni rómantísku
hugmyndafræði frumleikans kollvarpað.22
Allt frá því að skáldsaga Mary Shelley kom út hafa karlar og konur
deilt um uppruna hennar, það er, hversu mikinn þátt skáldið, eiginmaður
hennar, átti í henni.23 Lengi vel hefur Mary verið gefinn óskoraður höf-
undarréttur, sem endurspeglast svo í samslætti Frankensteins og hennar.
En Huet bendir á að Percy Shelley hafði heilmikil áhrif á mótun sögunn-
ar, sem í þokkabót er afrakstur umræðna um sögur og hvatningar til að
segja sögur.24 Þannig er Frankenstein einmitt sérlega gott dæmi um að
höfundurinn - og skaparinn - er aldrei einn.25
21 Sú umræða er mjög áhugaverð út frá sæborga og gervimennapælingum, og
vakna við hana spurningar eins og „Á hvaða stigi verður skaparinn sæborgsk-
ur og sæborgin að skapara?“ Gervimennskan virðist vera meira smitandi en
mennskan. Því miður gefst ekki tækifæri til að fara nánar út í þessi mál hér,
þrátt fyrir að skáldsaga Sjóns bjóði vissulega upp á hugvekjandi vangaveltur um
sköpun, skapara og skapnað.
22 Sjá Hutcheon 1984, s. xvi. Hutcheon vitnar í Edward Said (úr The World, The
Text, and the Critic, 1983, s. 35) um að höfundurinn hugsi síður um að skrifa
frumlega og meira um að endurskrifa. ímynd skrifanna breytist frá upphaflegri
áletrun sem er grafin eða greypt (inscription), yfir í að vera samhliða skrift.
23 Sjá Huet 1993, s. 129-162.
24 Sjá sömu heimild, sama stað.
25 Einnig má benda á að þrátt fyrir að Frankenstein skapi líkama skrýmslisins, þá
eru aðrir sem sjá um að móta sjálfsverund þess, að því marki sem skrýmslið yfir-