Skírnir - 01.09.2002, Page 237
SKÍRNIR
SKYLDI MÓTA FYRIR LANDI ?
459
en allar þær staðsetningar sem þeir endurspegla, og vitna um, eru þeir
nefndir heterótópíur.38 Foucault tekur spegilinn sem dæmi um slíkan stað
en í honum birtist rými sem er raunverulegt en vefengir jafnframt raun-
verulegar staðsetningar. Foucault telur til nokkur lögmál heterótópíunn-
ar og segir að í fyrsta lagi megi kenna þær við frávik: „Þar er komið fyrir
þeim einstaklingum sem í hátterni sínu víkja af meðalveginum eða frá
ríkjandi venjum" (137). Ljóst er að bæði Leó og vinir hans Antóní Brávn
og Mikhail Pushkin, svo ekki sé minnst á fulltrúann og tvíburabræðurna,
víkja mjög út af meðalvegi ríkjandi venja. í öðru lagi minnir Foucault á
„að samfélagið getur eftir því sem sögu þess vindur fram fengið het-
erótópíu, sem heldur áfram að vera til, mjög ólík hlutverk. í raun hefur
hver einasta heterótópía skýrt og afmarkað hlutverk innan samfélagsins
og sama heterótópían getur haft mismunandi hlutverk eftir því menning-
arástandi sem hún er hluti af“ (137-138). Þetta minnir á hugmyndir um
Island sem útópískt eða dystópískt, en bæði útópían og dystópían birtast
í skáldsögu Sjóns, eins og síðar verður komið að. I þriðja lagi megnar het-
erótópían „að draga saman á einum raunverulegum stað mörg rými,
margar staðsetningar sem eru í eðli sínu ósamrýmanlegar" (139). Dæmi
um þetta er sambland smáþorps í Saxlandi og íslands, Island sem Thule
og óvænt návist hins miðevrópska gotneska heims innan sögunnar. Að
lokum nefnir Foucault skipið sem hina fullkomnu heterótópíu, „báturinn
er brot úr rými sem flýtur um, staður án staðar sem lifir eigin lífi, staður
sem er lokaður en um leið á valdi óendanlegs hafsins og fer frá einni höfn
til annarrar“ (142). En Leó kemur einmitt með leirbarnið sitt á skipi til ís-
lands.
Heterótópía Foucault er grundvallarhugtak í vangaveltum Brians
McHale um rými innan metaskáldskapar, en hann ræðir hvernig póst-
módernískar bókmenntir skapa með sjálfsvitund sinni svokallaða sónu
(zone), svæði sem er á mörkum veruleika og skáldskapar. McHale heldur
því fram að póstmódernisminn einkennist af verufræðilegum hugsunar-
hætti, þar sem staða mannverunnar í heiminum sé í sífelldri skoðun. Þessi
verufræðilega sýn birtist í heimasköpun póstmódernískra bókmennta.
Líkt og Waugh og Hutcheon er McHale mjög upptekinn af þeirri auknu
sjálfsmeðvitund sem einkennir nútímabókmenntir og leggur áherslu á
meðvitaða heimsmyndun, myndun sem opinberar jafnharðan sköpunar-
ferli sitt, og rekur hana til skáldskapar og tungumáls. Heimar þessir eða
sónur lúta eigin lögmálum, í stað þess að taka mið af empírískum eða
samþykktum veruleika (consensus). McHale telur það mikilvægan þátt í
sköpun sónanna að þær eru myndaðar í tungumáli eða í texta, byggðar
upp á orðum.
38 Foucault 2002, s. 135-136. Eftirleiðis verður vitnað í greinina með blaðsíðutali
innan sviga.