Skírnir - 01.09.2002, Page 243
MYNDLISTARMAÐUR SKÍRNIS
Þar sem vit verður til
Myndlistarverk Ólafs Elíassonar
Þeir sem leið áttu um Ingólfsstræti eftir að dimmt var orðið í desember
1998 áttu þess kost að skoða upplýst myndlistarverk í sýningarglugga
gallerís við götuna.1 Verkið Foss eftir Ólaf Elíasson samanstóð af dalli
með vatni, dælu, slöngu sem leiddi vatnið upp og sleppti því aftur niður í
dallinn, hring eftir hring, og strobísku blikkljósi sem lýsti vatnið upp og
frysti tólf augnablik á hverri sekúndu, þannig að droparnir virtust frjósa
í lausu lofti. Fyrir bragðið mátti virða fyrir sér hvern einstakan dropa og
jafnvel fylgjast með ferð hans niður í dallinn. Myndlistargagnrýnandi DV
kallaði teknófossinn „tilraun til að gera hið ómögulega - að greina „hið
einstaka vatn“ úr straumnum og horfa á það renna hjá.“2
Ólafur Elíasson er fæddur árið 1967 í Kaupmannahöfn, af íslensku
foreldri, en alinn upp í Danmörku. „Ég er í rauninni jafndanskur og ég er
íslenskur."3 Hann útskrifaðist árið 1995 úr Konunglega listaakademíinu í
Kaupmannahöfn og þá þegar höfðu ýmsir sýningarstjórar fengið auga-
stað á honum. Síðastliðin ár hefur Ólafur verið búsettur og starfað í
Berlín, en segja má að listrænt bakland hans sé meginland Evrópu. Þótt
Ólafur hafi verið valinn til að vera fulltrúi Danmerkur á tvíæringnum í
Feneyjum árið 2003, má heyra á honum að hann telji mikilvægt „að kom-
ast út úr fastmótuðum hugmyndum um að sýningarskálinn sé kynning á
grundvelli þjóðernis." Slíkt skipti ekki máli í listrænu samhengi, þar sem
„listin liggi út yfir þjóðleg landamæri“ og þátttaka listamanns á alþjóðleg-
um stórsýningum snúist fyrst og fremst um það að „hafa getu til að taka
þátt í menningarumræðu á alþjóðlegum vettvangi."4
1 Gallerí Ingólfsstæti 8, síðar Gallerí i8, nú til húsa við Klapparstíg.
2 Áslaug Thorlacius: „Að frysta andartakið.“ DV 28. desember 1998.
3 Ólafur Elíasson: „Fullt af frábærum listamönnum hérna.“ Viðtal í DV 11. des-
ember 1998.
4 Ólafur Elíasson: „Ein af mikilvægustu sýningum ævi minnar." Viðtal í Morgun-
blaðinu 11. apríl 2002. í sama viðtali kemur glöggt fram að Ólafur telur mikil-
vægi listrænnar starfsemi á íslandi vanmetið: „Hvar sem ég kem reyni ég að
vekja áhuga á íslandi, náttúrunni og fólkinu. En þegar kemur að umræðu um
menningarpólitík og listmenntun þá reyni ég að komast hjá því að nefna ísland.
Það er skoðun mín að íslenska ríkið vanmeti algjörlega samfélagslegt og pólitískt
mikilvægi vel upp byggðrar menningarstefnu og öflugs listræns starfs í landinu."
Skírnir, 176. ár (haust 2002)