Bókasafnið - 01.07.2018, Side 8
8 Bókasafnið
Notkunin breytist, það er þessi mikla notkun
sem er að færast út fyrir veggi safnanna. Hvern-
ig bregðist þið við, þurfið þið að koma með nýja
þjónustu sem kallað er eftir?
Það er endalaus nýbreytni og þróun í starfseminni sem reynt
er að fylgja eftir. Stafræna endurgerðin var hafin þegar ég
kom hingað, með Sagnanetinu, sem var tilraunaverkefni. Það
var unnið í samstarfi við Cornell háskólann í Bandaríkjunum
og fékk stóran styrk frá Mellon Foundation. Þetta var mjög
merkilegt verkefni og við það varð til þekking í safninu, sem
lagði grunninn að timarit.is, handrit.is, bækur.is og öðrum
verkefnum á sviði stafrænnar endurgerðar sem safnið
vinnur að. Það eru flest þjóðbókasöfn í Evrópu sem vinna
að stafrænni endurgerð og við höfum staðið okkur mjög
vel hvað það varðar. Svo nefni ég sérstaklega timarit.is sem
er langvinsælasti vefurinn okkar með þúsundir heimsókna
daglega. Þó aðeins hluti slíkra fyrirspurna kæmu í þjónustu-
borðið, þá væri allt öðruvísi flæði í húsinu. Vefurinn virkar
mjög vel, er vinsæll og þekktur.
Það rýmkast þá eitthvað í húsinu fyrir einhverja
nýja starfsemi, er meiri menningarstarfsemi eða
aðrir nýir hlutir í húsinu?
Það hafa ýmsar hugmyndir sprottið upp, ekki bara hérna
innanhúss heldur einnig í ráðuneytinu og víðar. Við fáum
oft beiðnir um samstarf á menningarsviðinu og reynum að
koma til móts við ólíka aðila um margvísleg verkefni. Allt
stafræna efnið okkar flokkast undir menningarstarfsemi,
en einnig má nefna öflugt sýningarhald og ýmsar dagskrár
og málþing í kringum það. Þá hefur nýlega tekist samstarf
við Rithöfundasamband Íslands um ljóðaverðlaunin Maí-
stjarnan fyrir ljóðabók liðins árs. Verðlaunin voru veitt í
fyrsta sinn vorið 2017 og Sigurður Pálsson hlaut þau.
Tónlistarsafn Íslands sameinaðist safninu síðastliðið
sumar, en starfsemi þess tengist öðrum verkefnum á tón-
listarsviðinu. Tónlistarsafnið á sér nokkra sögu, það er
sjálfsprottið, en áhugafólk fór af stað með það. Það var á
ríkisstyrk og var um tíma rekið af Kópavogsbæ og með hús-
næði þar. Svo breyttust hlutirnir hjá Kópavogi og dregið var
í efa hvort sveitarfélag ætti að reka safn sem þetta og hvort
ekki væri eðlilegra að það væri annars staðar. Á endanum
sömdu mennta- og menningarmálaráðuneytið og Kópa-
vogsbær um að það kæmi hingað.
Landsbókasafnið er skylduskilasafn fyrir tónlist en Tónlist-
arsafnið safnaði einnig munum, viðtölum, myndum, hljóð-
færum, plötum, nótum, skjölum og bókum sem tengdust
tónlist. Hluti af safneigninni fór til Þjóðminjasafnsins og
hluti kom til okkar. Ný eining, Hljóð- og myndsafn, varð til
þar sem sameinast Tón- og myndsafn, Miðstöð munnlegrar
sögu og Tónlistarsafn Íslands. Næstu fimm árin munu fara
í að taka á móti efninu og færa inn í safnkostinn, flokka,
skrá og koma þessu í eina heild. Markmiðið er að miðla sem
mestu út á vefinn, en einnig að byggja upp aðstöðu fyrir
hlustun og rannsóknir. Það þarf einnig að huga að þremur
vefjum sem fylgdu með, sem eru tonlistarsafn.is, musik.is
og ismus.is. Það þarf að tengja efni tveggja fyrri vefjanna
inn í þær vefþjónustur sem fyrir eru og efla samstarf við
Árnastofnun um ismus.is.
Það hafa líka orðið smá breytingar í húsinu, en ekki mjög
róttækar. Starfsemin breytist og Þjóðarbókhlaðan er hönnuð
þannig að það er auðvelt að færa til húsgögn og veggi. Á 2.
hæð voru til dæmis tvö þjónustuborð. Það tók nokkur ár að
sameina þau og ég held að allir séu sáttir með þá breytingu.
Einnig var hæðinni breytt í talandi svæði og bætt við hring-
borðum og innstungum. Svæðið hefur verið auglýst fyrir
hópavinnu og er mjög vinsælt. Það koma tímabil þar sem
öll borðin eru fullnýtt meiri hluta dagsins. Endurskipulagn-
ing á 3. og 4. hæð er eftir og ráðist verður í það á næsta ári.
Eftir að Tónlistarsafnið kom inn, sjáum við fyrir okkur að 4.
hæðin verði meira tengd tónlist og hljóðefni og að þar verði
talandi hæð. Rætt hefur verið um að á 3. hæð verði aukin
þjónusta við háskólanema og að þar verði hljóðlát hæð. Á
báðum hæðum voru gestatölvur, en þeim hefur verið fækkað
verulega, því nú eiga allir fartölvur. Þá var einnig lagt af
tölvuver og því breytt í almenna kennslustofu.