Breiðfirðingur - 01.04.1996, Blaðsíða 36
34
BREIÐFIRÐINGUR
á síðari árum sínum. Ekki er mér kunnugt um, hversu margt
var boðsfólkið, en séð hefi ég reikning yfir vín það, er til
veislu þeirrar fór, og mun lítill eða enginn afgangur hafa
orðið. Samkvæmt reikningnum fór í erfisdrykkjuna 14 1/2
og hálfur pottur romm ... [einn pottur er tæpur líter, aths.
TRE], 50 pottar danskt brennivín ..., 11 og 1/2 pottur mjöð ...
11 pottar rauðvín ..., 3 pottar annað vín, 3 flöskur madeira,
3 pottar vínedik, enn fremur 4 pottar romm. Sennilegt er, að
boðsfólk hafi ekki verið fleira en 80-100 manns, og
helmingur þess kvenfólk. Má og gjöra ráð fyrir, að slæðst
hafi þar að, auk boðsfólks, kringum 20 karlmenn. Virðist
því svo, sem þar hafi verið drukkið fast og menn ekki þurft
að láta sér nægja einn lítinn „hundaskammt". 4)
Mannlýsingar
Mannlýsingar séra Friðriks eru ýtarlegar, ekki síst um ytra
útlit manna, og öllu því sem til lýta mátti telja vel til haga
haldið ef um andstæðinga hans var að ræða. Þannig lýsir hann
t.d. einum starfsbróður sínum:
Meðalmaður á vöxt með ávalar herðar, siginaxla, hálsmjór,
og var að sjá sem höfuðið stæði fram úr bringunni. Svo var
hann boginn á hálsliði og riðaði mikið. Smáeygður var
hann og tileygður, hvolfdi augunum og horfði ofan með
nefinu, völumæltur og skolaðist málið mjög í munninum og
drap drjúgum í skörðin, því misst hafði hann tennumar.
Sviplítill var hann og allur ógeðslegur, féglöggur og óheill
talinn, mjúkmáll og kallaði jafnan „bræður“. Hann hafði
mikið nef, og því var hann af háðskum mönnum kallaður
„lundanefur með teningsaugun“, þar eð tilgerðar-óstilling
var á þeim og þau ultu mikið í höfðinu. Hann var miður
þokkaður fyrir harðdrægni í tekjum og sínkni.5)